Bjarni Benediktsson ætlar að sækjast áfram eftir því að vera formaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi flokksins í nóvember, sem verður fyrsti landsfundurinn síðan í mars 2018. Í samtali við RÚV segir Bjarni að kjörtímabilið sé rétt að hefjast og honum finnist „ekkert annað eðlilegt en að ég haldi mínu striki og þess vegna í nóvember mun ég gefa kost á mér til að starfa áfram í þessari ríkisstjórn og leiða Sjálfstæðisflokkinn.“
Hann segir að honum líði alltaf eins og það séu mjög mikilvægir tímar uppi. „Maður þarf að nýta tímann vel þegar maður er í stjórnmálum og ég ætla að reyna að gera það áfram.“
Enginn annar hefur tilkynnt um formannsframboð og ekki er búist við því að Bjarni fái raunhæft mótframboð.
Tveir hafa setið lengur
Bjarni tók við formennsku í Sjálfstæðisflokknum í mars 2009, þá 39 ára gamall. Bjarni sigraði þá hinn eldri og reyndari Kristján Þór Júlíusson í formannsslag á landsfundi. Bjarni fékk 58 prósent atkvæða en Kristján Þór 40,4 prósent. Hann hefur því verið formaður í rúm þrettán ár. Landsfundir Sjálfstæðisflokksins, sem kjósa forystu hans, eru vanalega haldnir á tveggja ára fresti. Fundum sem fyrirhugaðir voru 2020 og 2021 var hins vegar frestað vegna kórónuveirufaraldursins.
Verði Bjarni endurkjörin formaður, sem verður að teljast nær öruggt, og sitji hann fram að næsta landsfundi þar á eftir sem fram fer 2024, mun hann hafa verið formaður Sjálfstæðisflokksins í 15 ár. Það þýðir að hann tekur sennilega fram úr Davíð Oddssyni, sem var formaður í 14 og hálft ár og yrði í öðru sæti yfir þá formenn sem setið hafa lengst. Metið á Ólafur Thors, sem var formaður í 27 ár.
Sá ráðherra sem þjóðin vantreystir mest
Í formannstíð sinni hefur Bjarni leitt Sjálfstæðisflokkinn í gegnum fimm kosningar. Honum hefur mest tekist að fá 29 prósent fylgi í kosningunum árið 2016, en minnst 23,7 prósent í fyrstu kosningunum 2009. Í kosningunum í fyrrahaust fékk Sjálfstæðisflokkurinn 24,4 prósent atkvæða sem er næst versta niðurstaða hans frá upphafi.
Í könnun sem Gallup gerði á trausti þjóðarinnar til ráðherra ríkisstjórnarinnar í apríl síðastliðnum var Bjarni sá ráðherra sem flestir báru lítið traust til, eða 70,7 prósent aðspurðra. Rúm 18 prósent aðspurðra sögðust bera mikið traust til Bjarna, ögn fleiri en sögðust treysta Jóni Gunnarssyni dómsmálaráðherra, sem er sá ráðherra sem fæstir báru traust til.
Fylgið komið aftur í kjörfylgi
Það sem af er þessu kjörtímabili hefur fylgi Sjálfstæðisflokksins ekki mælst mikið. Í apríl fór það í fyrsta sinn undir 20 prósent í könnun Gallup. Í sumar hefur það aðeins lagast og í síðustu birtu könnun Gallup mældist það 22,8 prósent. Í könnun sem Maskína gerði í júlí var fylgið komið aftur upp í kjörfylgið, eða 24,4 prósent.
Í sveitarstjórnarkosningunum sem fóru fram í vor hélt Sjálfstæðisflokkurinn stöðu sinni sem stærsti flokkurinn á landsvísu og fékk 110 fulltrúa kjörna. Kjörnum fulltrúum Sjálfstæðisflokks í 22 stærstu sveitarfélögum landsins fækkaði hins vegar um sjö frá fyrra kjörtímabili, eru nú 76 en voru 83 á síðasta kjörtímabili.
Honum mistókst meðal annars að komast til valda á ný í Reykjavík, en flokkurinn hefur verið utan stjórnar í höfuðborginni frá 1994, ef frá eru talin nokkur ár á kjörtímabilinu 2006-2010. Niðurstaðan, 24,5 prósent, var minnsta hlutfallslega fylgi sem flokkurinn hefur fengið í borgarstjórnarkosningum.
Þá fékk flokkurinn undir 50 prósent atkvæða í höfuðvíginu Garðabæ, heimabæ Bjarna, þar sem hann fékk 62 prósent 2018. Það er í fyrsta sinn sem Sjálfstæðisflokkurinn fær ekki meirihluta atkvæða þar síðan á áttunda áratugnum þegar sveitarfélagið hét Garðahreppur og íbúafjöldinn var fjórðungur af því sem hann er nú.