Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að það sé ekki ástæða fyrir ríkisstjórnina að leita til Alþingis til að draga til baka umsókn Íslands að Evrópusambandinu þar sem að það sé ekki stefna hennar að ganga í sambandið. Ekki sé því um meiriháttar breytingu að ræða á utanríkismálastefnu Íslands. Það skipti engu máli hvort umsóknin að Evrópusambandinu sé dauð eða steindauð. Hann segir að það eigi ekki að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópusambandið nema að fyrir því sé vilji hjá Alþingi eða að það sé stefna sitjandi ríkisstjórnar.
Þetta kom fram í máli hans í Kastljósi kvöldsins. Bjarni var gestur þess ásamt Árna Páli Árnasyni, formanni Samfylkingarinnar.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkismálaráðherra fundaði í dag með utanríkisráðherra Lettlands, Edgars Rinkevics, sem nú gegnir formennsku í Evrópusambandinu. Þar afhenti Gunnar Bragi honum bréf til formennsku sambandsins og framkvæmdastjórn þar sem tilkynnt er að ríkisstjórn Íslands hafi samþykkt á fundi sínum síðastliðinn þriðjudag að hún hafi ekki í hyggju að taka upp aðildarviðræður við sambandið á nýjan leik. Ríkisstjórnin líti því svo á að Ísland sé ekki lengur í hópi umsóknarríkja og hefur farið þess á fer leit við Evrópusambandinu að sambandið taki hér eftir mið af því. Jafnframt var tekið fram að litið sé svo á að þessi nýja stefna yfirtaki þær skuldbindingar sem gefnar voru í aðildarviðræðum fyrri ríkisstjórnar.
Árni Páll sagði að hans flokkur myndi koma því á framfæri við Evrópusambandið að með ákvörðun ríkisstjórnarinnar væri verið að ganga gegn þingvilja. Hann sagði ríkisstjórnina hafa farið með málið eins og mannsmorð eftir að hafa tekið ákvörðun um það.