Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, gerir ekki ráð fyrir því að slitastjórn Kaupþings muni leggja til að ríkið eignist hlut hennar í Arion banka. Það sé heldur ekki framtíðarlausn að ríkið eigi allt hlutafé í Íslandsbanka og Landsbankanum. Þetta kemur fram á mbl.is.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið sendi frá sér tilkynningu klukkan 4:10 í nótt þar sem tilkynnt var að íslenska ríkið væri að fara að eignast annan banka, Íslandsbanka, að öllu leyti. Fyrir á ríkið Landsbankann. Eini stóri viðskiptabankinn sem verður ekki nánast að fullu í ríkiseigu að loknu slitaferli gömlu bankanna verður því Arion banki. Þetta var niðurstaða funda sem ráðgjafar stærstu kröfuhafa Glitnis, núverandi eiganda 95 prósent hlutar í Íslandsbanka, og framkvæmdahópur um losun fjármagnshafta áttu á tímabilinu 25. september til 13. október vegna breytinga á stöðugleikaframlagi kröfuhafanna.
Kjarninn fjallaði ítarlega um tíðindi næturinnar í fréttaskýringu í morgun.
Ekki framtíðarlausn að ríkið eigi Íslandsbanka
Bjarni segir við mbl.is að tillaga kröfuhafa Glitnis sé mjög jákvætt mál. Það sé ekki komið að því að ríkið taki við bankanum, en ef það gerist munu ráðamenn taka sér góðan tíma til að fara yfir stöðuna. "Ég sé það ekki fyrir mér sem framtíðarlausn að ríkið fari með allt eignarhald bæði í Landsbankanum og Íslandsbanka. Það liggur beinast við að vinda sér strax í áætlanir um það hvernig framtíðareignarhaldi verður háttað. Ég hef ekki áhyggjur af því þótt ríkið eigi verulegan hlut í einhvern tíma, en mér finnst mikilvægt að við kynnum áform um það hvernig ríkið hyggst losa um eignarhlut sinn sem fyrst og við verðum að vanda vel til undirbúnings að því".
Eftir þær breytingar sem kynntar voru í morgun telur framkvæmdahópur um losun hafta að slitabú Glitnis sé að mæta stöðugleikaskilyrðum stjórnvalda og því séu forsendur fyrir undanþágu frá gjaldeyrishöftum fyrir hendi. Og eftir þessa breytingu er íslenska ríkið orðið eigandi að tveimur af þremur stærstu bönkum landsins.
Ekki liggur fyrir um hversu mikið endanlegt stöðugleikaframlag mun hækka við þessa breytingu. Það kemur ekki í ljós fyrr en ríkið selur Íslandsbanka, ef það ákveður að gera það.