Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að svo virðist sem önnur vinnubrögð og lögmál eigi við hjá fjölmiðlum í umfjöllum um lögreglumál þar sem blaðamenn eru undir í lögreglumálum en hjá almennum borgurum. Mál sem séu til rannsóknar fái reglulega umfjöllun í fréttatímum og framvindu mála sé fylgt eftir frá rannsókn til ákæru og dóms eða niðurfellingar máls eftir atvikum.
Annað sé uppi á teningnum í umfjöllun um þá ákvörðun lögreglunnar á Norðurlandi eystra að gefa fjórum blaðamönnum stöðu sakbornings í rannsókn sinni á broti gegn friðhelgi einkalífs manns sem var til umfjöllunar í fréttaflutningi af svokallaðri „skæruliðadeild Samherja“. „Það verður að segjast eins og er að svo virðist sem þessi hefðbundnu vinnubrögð og lögmál eigi ekki við, að minnsta kosti ekki að öllu leyti, í tilviki blaðamannanna sem fengu símtal í gær.“
Þetta segir Bjarni í stöðuuppfærslu á Facebook sem hann birti í kvöld.
Á okkar góða landi er þrískipting ríkisvalds. Það felur meðal annars í sér að Alþingi setur lög, framkvæmdavaldið fylgir...
Posted by Bjarni Benediktsson on Tuesday, February 15, 2022
Lögreglan á Norðurlandi eystra birti tilkynningu á vef sínum í dag þar sem staðfest var eina brotið sem þar er til rannsóknar sé ætlað brot gegn friðheldi einkalífs og rannsókn þess sögð í hefðbundnum farvegi. Þeir blaðamenn sem hafa fengið stöðu sakbornings vegna rannsóknar lögreglunnar eru Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður á Stundinni, Þóra Arnórsdóttir, ritstjóri Kveiks, Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans og Arnar Þór Ingólfsson, blaðamaður á Kjarnanum. Aðalsteinn, Þórður Snær og Arnar Þór skrifuðu umfjallanir um „skæruliðadeild Samherja“ í maí í fyrra en Kveikur tók málið ekki til umfjöllunar.
Þegar umfjöllun Kjarnans og Stundarinnar birtist var Bjarni á meðal þeirra ráðamanna sem tjáði sig um hana opinberlega. Þá sagðist hann telja að Samherji hefði „gengið óeðlilega fram í þessu máli með sínum afskiptum.“
Efast um að blaðamennirnir viti hvað sé til rannsóknar
Bjarni segir að engar fréttir hafi verið fluttar af því sem mestu máli skiptir og flesta þyrstir að vita hvað lögreglan kunni að hafa undir höndum sem gefi tilefni til rannsóknar. „Þeir sem stjórnað hafa þeirri umræðu eru þeir hinir sömu og nú eru til rannsóknar. Það eina sem þeir hafa fram að færa hins vegar eru getgátur um það hvað lögreglan muni mögulega vilja spyrja þá um og álit þeirra á eigin getgátum um það. Þeir segja okkur að þeim sé gefið að sök að hafa nýtt gögn til að skrifa fréttir. En hvað vita þeir svo sem um það á þessu stigi máls?“
Í fyrra voru gerðar breytingar á hegningarlögum. Þar var 229. grein þeirra meðal annars breytt þannig að hún hljóðar nú svona: „Hver sem í heimildarleysi verður sér úti um aðgang að gögnum eða forritum annarra sem geymd eru á tölvutæku formi skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári.“
Í áliti allsherjar- og menntamálanefndar vegna þeirra breytinga sagði að ákvæðið eigi ekki við „þegar háttsemin er réttlætanleg með vísan til almanna- eða einkahagsmuna. Er hér m.a. litið til þess að ákvæðið hamli ekki störfum og tjáningarfrelsi fjölmiðla, m.a. í þeim tilvikum þegar þeir fá aðgang að gögnum eða forritum sem hefur verið aflað í heimildarleysi og geti varðað almannahagsmuni.“ Undir álitið og breytingartillöguna skrifuðu fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna, Samfylkingar, Pírata, Viðreisnar, Framsóknarflokks og Miðflokks, eða allir sem sæti áttu í nefndinni.
Spyr hvort það séu fordæmi fyrir fréttaflutningi RÚV
Bjarni gagnrýnir einnig RÚV fyrir að hafa tekið málið skrefinu lengra í fréttatíma sínum í kvöld með því að fá lögmanninn Gunnar Inga Jóhannsson til „lýsa því yfir að ef málið snerist um það sem blaðamennirnir sjálfir telja, þá sé nær útilokað að ákæra verði gefin út og svo les maður fréttir af dómafordæmum um að slík mál séu vonlaus frá upphafi. ,,Afar ólíklegt að blaðamennirnir verði ákærðir," segir í fyrirsögn fréttar á ruv.is. Þetta er áður en nokkur maður veit hvaða gögn lögreglan hefur eða hvaða spurninga hún leitar svörum við. Eru einhver fordæmi fyrir svona vinnubrögðum fréttastofu?“
Í stöðuuppfærslu Bjarna segir hann að öll fréttin hjá RÚV hafi verið að gefnum forsendum þeirra blaðamanna sem fengu símtal í gær. „Hefði Ríkisútvarpið ekki mátt láta þess getið að sumir þeirra sem eru með kenningar um það hvað málið snýst hafa starfað á Ríkisútvarpinu. Hefði það ekki sýnt lágmarks viðleitni til að gæta hlutleysis í máli sem virðist á algjöru byrjunarstigi? Formaður Blaðamannafélagsins hefur komist að því að máilð sé alvarlegt og óskiljanlegt. Gott ef ég heyrði ekki að það væri búið að senda bréf til útlanda til að vekja athygli á þessu alvarlega máli. Ég get ekki varist því að spyrja nokkurra spurninga þegar maður les, heyrir og sér hverja fréttina á eftir annarri vegna símtalsins frá lögreglunni í gær.“
„Má gera þá kröfu að allir séu jafnir fyrir fjölmiðlunum líka?“
Bjarni spyr svo hvort fjölmiðlamenn séu of góðir til að mæta og svara spurningum lögreglu eins og almennir borgarar, og hvernig það geti talist alvarlegt mál að lögregla óski eftir því að þeir gefi skýrslu? „Ef fjölmiðlamennirnir eiga þann lögvarða rétt sem þeir gefa sér að eigi við í þessu máli, að svara ekki spurningum lögreglunnar, vilja þeir þá ekki bara gera það, neita að svara. Er það mjög íþyngjandi? Meira íþyngjandi en almennir borgarar þurfa að þola í málum sem eru til rannsóknar lögreglu? [...] Við gerum öll kröfu til þess að hér á landi séu allir jafnir fyrir lögunum. Má gera þá kröfu að allir séu jafnir fyrir fjölmiðlunum líka?“