Bæði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sögðu í fjölmiðlum haustið 2013 að bera ætti slit á aðildarviðræðum við Evrópusambandið undir Alþingi.
Haustið 2013 lét Gunnar Bragi taka saman álitsgerð um bindandi áhrif þingsályktana, vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að gera hlé á aðildarviðræðum. Samkvæmt þeirri álitsgerð binda þingsályktanir stjórnvöld ekki umfram það sem af þingræðisvenju leiðir.
Utanríkisráðherra sagði í kjölfar álitsgerðarinnar að ríkisstjórnin væri því ekki bundin af því að fylgja ályktun þingsins eftir. Mikil umræða skapaðist um málið, og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kom í viðtal við RÚV og sagði að ef slíta eigi aðildarviðræðum við Evrópusambandið þurfi að bera þá ákvörðun undir þingið. Hann sagði málið þurfa að koma til kasta þingsins á endanum. „Mér finnst það vera hluti af því sem er framundan hjá okkur í þinginu. Næsta skref eigi að vera þetta.“ Hann var þá spurður sérstaklega um viðræðuslit og sagði „þú ert þá að tala um ef viðræðunum yrði endanlega slitið. Ég tel að það væri ákvörðun sem þyrfti að bera undir þingið.“ Hann sagði jafnframt að málið væri þess eðlis að þjóðin verði að fá að hafa á því skoðun.
Tveimur dögum síðar kom Gunnar Bragi fram á ný og sagðist vera sammála Bjarna um að bera eigi slit á aðildarviðræðum við Evrópusambandið undir Alþingi. „Ég hef aldrei mótmælt því að þingið þurfi að taka endanlega ákvörðun. Það sem ég hef hins vegar sagt er að það megi lesa það út úr álitinu að þess þurfi ekki. Ég hef líka sagt að ég muni ekki eiga frumkvæði að því að leggja það til að svo verði gert. Því get ég tekið undir með Bjarna Benediktssyni að það sé eðlilegast að þingið taki þessa ákvörðun,“ sagði Gunnar Bragi í viðtali við Morgunblaðið.