Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, vill leggja lífeyriskerfið á Íslandi til hliðar í þeirri mynd sem það er nú og byggja upp nýtt frá grunni. Hann segist vera að leggja lokahönd á hugmyndir í þá veru og að hann ætli sér að kynna þær innan tíðar.
Þetta kom fram í viðtali við Bjarna í þættinum Bítið á Bylgjunni í morgun.
Bjarni sagði þar að það þyrfti að sætta sig við að of margir væru ekki að ljúka starfsævi sinni með rík lífeyrisréttindi og því þyrfti að hugsa kerfið upp á nýtt. „Nota skattkerfið annars vegar til að styðja við þessa hópa, auka svigrúm til atvinnuþátttöku án skerðinga, og hins vegar að hætta að líta á þetta sem bætur heldur stuðningskerfi sem byggir á réttindum.“
Vísaði í breytingarnar 2016
Í viðtalinu sagði Bjarni að kerfinu hefði verið breytt verulega árið 2016, þegar hann var fjármálaráðherra líkt og nú, og að nú væri kominn sá tímapunktur að ráðast þyrfti í enn róttækari breytingar.
Með því að samræma lífeyriskerfin átti loks að vera hægt að nálgast kjarasamninga heildrænt og vinna skipulega að því að koma í veg fyrir að höfrungahlaup launahækkana myndi grafa undan því markmiði að bæta kjör íslenskra launamanna.
Í samkomulaginu var sömuleiðis fjallað um að launakjör opinberra starfsmanna yrðu jöfnuð við þau sem tíðkast á almennum markaði. Samkvæmt samkomulaginu átti launajöfnunin að nást innan áratugar en iðgjöld áttu að hækka á móti í almenna kerfinu í 15,5 prósent.
Á móti áttu opinberir starfsmenn að samþykkja stórtækar breytingar á lífeyrisréttindavinnslu sinni. Stærstu breytingarnar voru þær að lífeyristökualdur var hækkaður úr 65 í 67 ár, sjóðssöfnun myndi byggja á föstum iðgjöldum og ávinnsla réttinda yrði aldurstengd.
Samhliða yrði ábyrgð launagreiðenda, ríkis og sveitarfélaga, á sjóðunum afnumin.
Loforð sem ekki hefur verið efnt
Í svari við fyrirspurn Kjarnans, sem send var til fjármála- og efnahagsráðuneytisins í september 2016, kom fram að laun opinberra starfsmanna væru um það bil 16 prósent lægri en starfsmanna á almennum vinnumarkaði á þeim tíma.
Það var því launamunurinn sem þurfti að vinna upp næsta áratuginn umfram almennar launahækkanir.
Svarið byggði á samanburði Hagstofu Íslands á launamun opinberra starfsmanna og þeirra sem starfa á almennum vinnumarkaði. Sá fyrirvari var þó gerður á því að launasamanburðurinn væri erfiður og aðilar samkomulagsins töldi sig ekki geta byggt frekari vinnu um launasamanburð á grunni niðurstöðu Hagstofunnar. Því varð ofan á að byggja þyrfti vinnuna á „betri forsendum og ræðast frekar á milli aðila.“
Kjarninn greindi frá því í byrjun júní að nú, þegar fimm ár eru liðin frá því að samkomulagið var gert, væri langt í land að laun opinberra starfsmanna séu í takti við laun á almenna markaðnum.