Hlutverk stjórnmálamanna er ekki að reyna að tryggja öllum nákvæmlega sömu stöðu í lífinu sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í svari við fyrirspurn Jóhanns Páls Jóhannssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.
„Við höfum byggt hér upp stéttlaust samfélag. Þar sem jöfnuður er meiri en í nokkru öðru ríki,“ sagði Bjarni í framboðsræðu sinni á landsfundi Sjálfstæðisflokksins um síðustu helgi.
Jóhann Páll spurði Bjarna frekar út í þessa fullyrðingu sína á þingi í dag og vísaði í slagorð Sjálfstæðisflokksins frá stofnárum hans fyrir nærri hundrað árum.
„Hér á 20. öldinni varð til stjórnmálaflokkur, varfærinn Íhaldsflokkur, sem sagði: „Stétt með stétt“ og viðurkenndi þar með, athugið það, viðurkenndi stéttaskiptingu í íslensku samfélagi. Þessi flokkur horfðist í augu við vandann, stéttaskiptinguna, en kallaði eftir samstöðu þvert á stéttir. Þessi varfærni íhaldsflokkur er ekki til. Nú segja Sjálfstæðismenn ekki lengur: Stétt með stétt, heldur segja þeir að Ísland sé stéttlaust samfélag,“ sagði Jóhann Páll.
„Það eru þúsundföld árslaun öryrkja,“ sagði Jóhann Páll, sem spurði Bjarna í framhaldinu tveggja spurninga og sagðist ekki hafa áhuga á svörum í formi gini-stuðla eða mælinga á tekjujöfnuði. „Ég er að tala um stéttaskiptingu, ég er að tala um fólk hérna.“
Spurningarnar voru svohljóðandi:
- Telur ráðherrann að öryrkinn og stórútgerðarmaðurinn tilheyri sömu stétt?
- Fæðist barn öryrkjans inn í sömu stétt og barn útgerðarmannsins? „Trúir hæstvirtur fjármálaráðherra því að þessi börn fái sömu tækifærin og tilheyri sömu stétt? “
Fólk hafi jöfn tækifæri til að blómstra
Bjarni hóf svar sitt á því að segja að vandinn við marga jafnaðarmenn sé meðal annars sá að fólk trúir því að það sé hægt og skynsamlegt að byggja samfélag þar sem stjórnvöld tryggja öllum jafna útkomu í lífinu. Hann sagði Sjálfstæðisflokkinn leggja áherslu á að fólk hafi jöfn tækifæri til að blómstra.
Bjarni sagði þá sem vilja halda því fram að stéttaskipting ríki á Íslandi vilji ekki, líkt og Jóhann Páll, ræða um gini-stuðla eða raunverulega útkomu.
„Hvað er annars betur til vitnis um að okkur hafi tekist að tryggja góðan jöfnuð í samfélaginu sem við búum í en sú staðreynd að hvergi í heiminum ríkir meiri jöfnuður en á Íslandi?“ spurði Bjarni, en sagði þeirri staðreynd vera hafnað og í staðinn spurt hvort það geti verið að til sé fólk í ólíkri stöðu í samfélaginu.
Bjarni sagði Sjálfstæðisflokkinn ekki vera að reka stjórnmálastefnu sem þykist geta, eins og jafnaðarmenn að jafnaði gera, tryggt öllum sömu niðurstöðu í lífinu.
Bjarni sagðist hins vegar geta glatt Jóhann Pál með því að segja: „Þetta fólk er ekki í sömu stöðu og við stjórnmálamennirnir eigum ekki einu sinni að reyna að tryggja öllum nákvæmlega sömu stöðu í lífinu.“
Fjarstæðukennd fullyrðing um stéttlaust samfélag
Jóhann Páll sagði það ekki nema von að Bjarni lendi í vandræðum með fullyrðingu sína um að Ísland sé stéttlaust samfélag.
„Hún er fjarstæðukennd. Það er ekki furða að hann sé á harðahlaupum undan eigin orðum en hann verður bara að una því að talað sé um stéttaskiptingu á Alþingi Íslendinga.“
Jóhann Páll vísaði í gögn frá landlækni sem sýna að 30 ára karlmaður, sem er einvörðungu með grunnskólapróf, vænst þess að lifa fimm árum skemur en jafn gamall maður með háskólapróf. „Er þetta tilviljun eða er þetta einmitt áminning um að Ísland er víst stéttskipt samfélag?“ spurði Jóhann Páll.
Hann vísaði jafnframt í gögn frá OECD sem sýna að helmingur erlendra ríkisborgara á Íslandi er undir fátæktarmörkum en samt í launaðri vinnu. „Við þurfum að fara til Bandaríkjanna eða Sviss til að finna sams konar hlutfall. Er þetta tilviljun eða kannski einmitt áminning um að Ísland er stéttskipt samfélag, að það er eilífðarverkefni að draga úr þessari stéttaskiptingu, að við eigum ekki að afneita henni og viðhalda henni eins og hæstvirtur fjármálaráðherra gerir? Við eigum að draga úr henni og milda hana,“ sagði þingmaðurinn.
Bjarni sagði það ekki koma í hlut Jóhanns Páls að leggja af slagorð Sjálfstæðismanna, „stétt með stétt“.
„Það er bara rangt hjá háttvirtum þingmanni að við höfum aflagt það slagorð okkar. Staðreyndin er samt sú að allar tölur sýna okkur að við höfum náð meiri árangri í því að tryggja stéttlaust samfélag heldur en nokkurt annað þjóðríki. Ekki nóg með það heldur eru kjör þeirra sem minnst hafa á Íslandi einhver þau bestu sem fyrirfinnast innan OECD og innan Evrópu,“ sagði Bjarni.