Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra tók upp hanskann fyrir fjárfestingar ríkisins í almenningssamgöngum, í kjölfar þess að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins gagnrýndi sérstaklega fjárveitingar til félagsins Betri samgangna í umræðum í þinginu í síðustu viku.
Fram kom í máli fjármálaráðherra að honum þætti Sigmundur Davíð tala eins og skilvirkar almenningssamgöngur skiptu engu máli og sagðist Bjarni ekki sammála því.
Sigmundur Davíð sagði í ræðustól Alþingis, í óundirbúinni fyrirspurn, að ríkisstjórnin væri að „eyða peningum í alls konar vitleysu“ og tiltók í þeim efnum sér í lagi 900 milljóna króna aukin framlög til opinbera hlutafélagsins Betri samgangna, sem lögð voru til á milli umræðna í fjárlagavinnunni sökum þess að ekki kemur til álagningar svokallaðra flýti- og umferðargjalda á árinu 2023.
Formaður Miðflokksins lagði upp með það í ræðum sínum að nafn félagsins væri rangnefni, þar sem starfsemi þess snerist „um það að þrengja að samgöngum í borginni“ og sagði kostulegt að ríkið færi „að borga milljarð í að halda gangandi einhverju batteríi um að þrengja að samgöngum á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að ríkið hafi vanrækt að leggja ný gjöld á almenning“.
Vel hægt að réttlæta umtalsverða fjárfestingu
Bjarni steig í pontu og svaraði þeim aðfinnslum sem Sigmundur Davíð setti fram með þeim orðum að honum þætti formaður Miðflokksins „tala um almenningssamgöngur eins og þær séu einskis virði og það skipti engu máli að þær séu skilvirkar og virki hér fyrir höfuðborgarbúa“.
„Ég er ekki sammála því,“ sagði Bjarni og bætti við að hann væri þeirrar skoðunar „að það sé vel hægt að réttlæta talsverða fjárfestingu eins og við höfum ákveðið í höfuðborgarsáttmálanum til þess, samhliða vegaframkvæmdum fyrir bíla, að hér verði byggt upp nútímalegt og skilvirkt almenningssamgöngukerfi, alvörukerfi“.
Með gerð samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins var ákveðið að leggja 120 milljarða króna í bætta samgönguinnviði á höfuðborgarsvæðinu fram til ársins 2033.
Þar af var áformað að 52,2 milljarðar færu í stofnvegaframkvæmdir, 49,6 milljarðar króna í Borgarlínu, 8,2 milljarðar í göngu- og hjólastíga og 7,2 milljarðar í bætta umferðarstýringu og sértækar öryggisaðgerðir. Þessar upphæðir voru á verðlagi ársins 2019.
Frumvarp ráðherra um umferðargjöld nú áformað í mars
Eins og Kjarninn sagði frá í liðinni viku eru það tafir sem orðið hafa á áformum um að leggja svokölluð flýti- og umferðargjöld á umferð á höfuðborgarsvæðinu sem skýra aukin framlög ríkisins til Betri samgangna á næsta ári.
Ekki er búið að útfæra þessi nýju gjöld og ekki er heimild fyrir þeim í lögum sem stendur, en fjármálaráðherra áformar á þessum þingvetri að leggja fram frumvarp um flýti- og umferðargjöldin. Áður var gert ráð fyrir því að frumvarpið liti dagsins ljós í nóvember en nú er áformað að það verði lagt fram í mars.
„Með frumvarpinu er lagt til að tekið verði upp nýtt fyrirkomulag gjaldtöku í formi flýti- og umferðargjalda á höfuðborgarsvæðinu með gildistöku hinn 1. janúar 2024. Markmið frumvarpsins er að standa straum af stofnframkvæmdum samgöngumannvirkja, fjármögnun og afleiddum kostnaði slíkrar uppbyggingar. Gjöldunum er ætlað að tryggja nauðsynlega fjármögnun um leið og þeim er ætlað að stuðla að því að markmiðum Samgöngusáttmála ríkis og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu verði náð,“ segir í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar.