„Nú er endanlega búið að staðfesta dauða gömlu Icesave-grýlunnar. Jarðarför hennar fór næstum fram í kyrrþey, a.m.k. sé miðað við þær upphrópanir, formælingar og djöfulskap sem einkenndu tilveru hennar. Öll sú tilfinningasemi var byggð á innantómum hræðsluáróðri og stjórnmálamenn þess tíma ættu að skammast sín fyrir að leiða þjóðina á þær skaðlegu brautir,“ segir Björgólfur Thor Björgólfsson, fjárfestir og fyrrverandi stærsti eigandi Landsbanka Íslands ásamt föður sínum Björgólfi Guðmundssyni, á vef sínum í dag.
Þar gerir hann uppgjör Icesave skuldarinnar að umtalsefni, en eins og greint var frá 18. september síðastliðinn er Icesave-deilunni formlega lokið með uppgjörsgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta til Breta og Hollendinga, upp á 20 milljarða króna.
Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta hefur nú þegar greitt Hollendingum og Bretum samtals tuttugu milljarða íslenskra króna úr B deild sjóðsins, en í þeirri deild eru fjármunir sem að mestu leyti var safnað fyrir bankahrunið, að því er fram kemur í tilkynningunni.
DNB og FSCS hafa eins og aðrir forgangskröfuhafar hjá þrotabúi gamla Landsbankans fengið greiðslur frá gamla Landsbankanum sem nema um 85 prósentum af höfuðstól krafnanna.
Á vef sínum segir Björgólftur Thor að „skömm“ þeirra sem hafði séð sér hag í því að búa til „grýlu“ úr Icesave-málinu, en ekki leita lausna og horfa til mikilvægi þess að vernda eignir, sé mikil. „Þjóðin klofnaði í stríðandi fylkingar og ásakanir um föðurlandssvik urðu svo algengar að enginn virtist gera sér grein fyrir alvarleika þeirra lengur. Lífskjör hér áttu að færast aftur á steinöld og þjóðarinnar beið það eitt að verða undirokaðir þrælar stórþjóða. Stjórnmálamenn kyntu margir undir, í stað þess að hefja sig upp yfir öfgarnar og benda rólega og yfirvegað á færar leiðir til lausnar. Skömm þeirra er mikil.“