Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata segir í stöðuuppfærslu á Facebook í dag að hann ætli aðeins að taka upp hanskann fyrir Birgi Þórarinsson þingmann Sjálfstæðisflokksins varðandi ákvörðun hans að yfirgefa Miðflokkinn einungis tveimur vikum eftir kosningar og ganga í raðir Sjálfstæðismanna. „Rosalega lítið samt,“ skrifar Björn Leví.
Þingmennirnir unnu saman í fjárlaganefnd á síðasta kjörtímabili og segist Björn Leví hafa spjallað við Birgi um hin ýmsu mál – og auðvitað verið efnislega ósammála honum í flestum málum. Þó ætli hann að taka „aðeins upp hanskann fyrir hann“.
Birgir hefur greint frá því opinberlega eftir að hann hætti í Miðflokknum að vegna þess að hann gagnrýndi samflokksmenn sína opinberlega vegna Klausturmálsins hefði hann orðið að vandamáli í flokknum. „Ég var tekinn fyrir á þingflokksfundum. Það eru haldnir sérstakir þingflokksfundir þar sem ég er eina umræðuefnið og gagnrýndur mjög harkalega fyrir að hafa gagnrýnt þá. Það eru tveir fundir haldnir þar sem ég er eini dagskrárliðurinn. Þegar það á að halda þriðja fundinn að þá sagði ég að nú væri nóg komið og að ég væri farinn ef þessi fundur yrði haldinn. Þá var hann ekki haldinn. Ég var á þeim tímapunkti reiðubúinn að fara,“ sagði Birgir meðal annars á Rás 2 í morgun.
Sjálfhverf ákvörðun að halda þessu frá kjósendum og hjálpa Miðflokknum að ná þingsætum
Björn Leví segir að auðvitað hefði Birgir átt að hætta í Miðflokknum á síðasta kjörtímabili og hafna með því þessum „fáránlega málflutningi klaustursmanna og þessum ofsóknum sem hann lýsir hér að hann hafi verið beittur“.
Jafnframt hafi Birgir rétt á því að hætta í Miðflokknum núna og eigi tilefnið alveg jafn mikið við og áður. „Það safnast þegar saman kemur,“ skrifar hann.
Björn Leví telur að ef Birgir sé að segja satt varðandi það að hann og varaþingmaður Miðflokksins, Erna Bjarnadóttir, hafi verið búin að leggja sig „verulega fram í kosningabaráttunni“ og hefðu þau ekki haft góða frambjóðendur og aðstoðarfólk í Suðurkjördæmi og náð þeim árangri sem þar náðist væri Birgir ekki viss um að flokkurinn hefði náð inn á þing, þá sé önnur leið til þess að túlka þetta.
„Í stað þess að segja bara nei, hingað og ekki lengra þá tekur hann sjálfhverfa ákvörðun um að halda þessu frá kjósendum og hjálpa Miðflokknum að ná þingsætum. Það þurfti ekki nema um það bil 1.300 færri atkvæði á landsvísu til þess að flokkurinn væri undir 5 prósent þröskuldnum (eins fáránlegur og sá þröskuldur er samt). Það munaði ekki nema 7 atkvæðum að Birgir væri ekki kjördæmakjörinn, sem dæmi,“ skrifar Björn Leví.
Hann segir að Birgir hafi haft „hvert tækifærið á fætur öðru til þess að stíga út úr þessari þrautagöngu“.
Hefði verið skiljanlegra að stíga frá fyrr – en miklu skiljanlegra ef hinir í flokknum hefðu farið
Björn Leví segir að það að stíga frá loksins núna sé alveg skiljanlegt – en það væri margt annað mun skiljanlegra í þessu ef hann hefði stigið frá fyrr og miklu skiljanlegra ef hinir í Miðflokknum hefðu frekar stigið frá.
„Þarna er sem sagt hanskinn sem ég tek upp í þessu máli. Auðvitað er það ekki Birgir sem á að þurfa að segja sig frá miðflokknum og kjósendum hans í Suðurkjördæmi, ábyrgðin á öllu þessu veseni liggur hjá _gerendunum_ í þessu máli.
Hér með hef ég lokið því að halda á einhverjum hanska og hendi honum bara aftur í gólfið því þó réttur fólks til þess að haga sér svona er alveg skýr þá þarf fólk líka að axla ábyrgð á verkum sínum,“ skrifar hann að lokum.
Best að skella sér aðeins í þessa umræðu. Ég vann með Birgi í fjárlaganefnd á síðasta kjörtímabili og hef spjallað við...
Posted by Björn Leví Gunnarsson on Tuesday, October 12, 2021