Blaðamenn hjá Reuters-fréttaveitunni eru sagðir pirraðir og hreinlega skammast sín, yfir samstarfi Reuters við rússnesku ríkisfréttaveituna Tass, sem hefur frá upphafi stríðsins í Úkraínu birt fregnir af þróun mála á vígvellinum upp úr upplýsingum rússneskra varnarmálayfirvalda.
Frá þessu er sagt í frétt Politico, en samstarf Reuters og Tass hófst árið 2020 og felur í sér að Reuters dreifir efni frá rússnesku fréttaveitunni áfram til viðskiptavina sinna. Þessi samningur er sagður hafa vakið nokkra undrun innan fyrirtækisins er hann var gerður, en hins vegar vakti hann ekki mikla athygli út á við.
Tass er ein af fleiri en 90 fréttaveitum sem eru hluti af þjónustu Reuters sem heitir Reuters Connect, en um er að ræða fréttaveituþjónusta ætluð fjölmiðlum um allan heim, sem greiða Reuters fyrir aðgang að því efni sem þar má finna.
Þögn stjórnenda vekur áhyggjur
„Það var vandræðalegt þegar samstarfssamningurinn var undirritaður fyrir tveimur árum,“ sagði einn fréttamaður Reuters við Politico og bætti því við að nú væri samstarfið „einfaldlega rangt“ og að þögnin úr efri lögum fyrirtækisins um það vekti upp áhyggjur.
Í frétt Politico vitna tveir blaðamenn hjá Reuters, sem er alls með um 2.500 blaðamenn á sínum snærum í um 200 löndum heims, til um það að sumir starfsmenn fréttaveitunnar hafi reynt að fá svör við því af hverju Reuters haldi áfram að dreifa fréttum frá Tass í gegnum Reuters Connect.
Starfsmennirnir eru sagðir hafa lýst yfir áhyggjum af ógagnrýnni nálgun Tass á upplýsingar sem fréttaveitan fær frá stjórnvöldum í Rússlandi, en margt af því efni sem Tass hefur dreift í fréttum sínum frá upphafi innrásarinnar þykir í meira lagi vafasamt.
Þannig hefur Tass sagt frá því að Úkraínumenn hafi drepið almenna borgara í Donbas-héruðunum og varpað líkunum í fjöldagrafir, að úkraínskar hersveitir hafi skotið á Rússa á meðan á staðbundnu vopnahléi stóð og að úkraínskir nýnasistar hafi stundað það að nota almenna borgara sem mennska skildi.
Í gær hafði Tass það til dæmis eftir rússneskum embættismanni að úkraínskir nýnasistar væru með um 130 þúsund almenna borgara í „gíslingu“ í borginni Mariupol, sem hefur mátt þola sprengjuregn Rússa undanfarnar vikur.
Síðustu vestrænu blaðamennirnir sem voru við störf í borginni, þar til þeir voru fluttir í burtu af úkraínskum hermönnum, hafa allt aðra sögu að segja.
Efni frá þriðju aðilum merkt sem slíkt
Í svari sem Politico fékk frá Reuters vegna þessa máls var áhersla lögð á að fréttastofa Reuters starfaði óháð öllum samningum sem gerðir hafa verið í tengslum við efnisframboð Reuters Connect.
„Connect-vettvangurinn leyfir notendum – oftast öðrum fjölmiðlafyrirtækjum – að sjá efni, þar á meðal vídjó, myndir og skýringarmyndir, frá mörgum stöðum í heiminum. Allt efni sem stafar frá þriðju aðilum er skýrlega merkt sem slíkt og er með fyrirvara um að Reuters „tryggi ekki nákvæmni efnisins né styðji við nokkur viðhorf eða skoðanir sem þar koma fram.“