Samfylkingin setti kosningabaráttu sína í Reykjavík af stað með fundi í Gamla bíó á Sumardaginn fyrsta. Flokkurinn hefur verið í meirihluta í borgarstjórn óslitið frá 2010 og hefur oddvitinn Dagur B. Eggertsson verið borgarstjóri frá 2014.
Flokkurinn var sá næst stærsti í sveitarstjórnarkosningunum árið 2018, fékk 25,9 prósent atkvæða og sjö borgarfulltrúa kjörna. Í nýjustu kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar, sem birt var í morgun, mældist Samfylkingin stærst framboða með 23,5 prósenta fylgi í Reykjavík.
Kosningaáherslur Samfylkingarinnar voru samþykktar á Reykjavíkurþingi flokksins undir lok mars. Þær eru sagðar afrakstur samráðs við borgarbúa í aðdraganda kosninga og hugmyndavinnu málefnahópa flokksins í borginni.
Áherslurnar eru allítarlegar og settar fram á fjörutíu og einni blaðsíðu undir slagorðinu „Reykjavík á réttri leið“. Kjarninn leit yfir stefnu flokksins í borginni og tók saman helstu áhersluatriðin og aðgerðirnar sem flokkurinn boðar.
Margt í stefnu Samfylkingarinnar er, ef til vill eðlilega, endurómur þeirrar stefnu sem borgarstjórnarmeirihlutinn hefur staðið fyrir á kjörtímabilinu og sett eru fram fyrirheit um að halda áfram á sömu braut.
Borgin úthluti fleiri lóðum og gerður verði „húsnæðissáttmáli“
Í umfjöllun um stefnu flokksins í húsnæðismálum segir þannig að síðustu ár hafi verið metár í húsnæðisuppbyggingu í borginni og að Reykjavík eigi að mæta þeirri miklu eftirspurn sem nú er eftir fasteignum með aukinni úthlutun lóða og samþykki skipulags- og byggingarverkefna, með sérstakri áherslu á staðsetningu við þróunarása Borgarlínu.
Flokkurinn vill einnig tryggja að nóg byggist af félagslegum leiguíbúðum og er Samfylking með það í sínum kosningaáherslum að það gerist ekki einungis í Reykjavík, heldur verði gerður svokallaður „húsnæðissáttmáli“ fyrir allt höfuðborgarsvæðið þar sem meðal annars verði kveðið á um hlutfall félagslegra leiguíbúða og hlutfall óhagnaðardrifinnar uppbyggingar í öllum sveitarfélögum, en sjálf er borgin með það markmið að fjórðungur allrar uppbyggingar sé á vegum óhagnaðardrifinna félaga.
Samfylkingin leggur áherslu á þéttingu byggðar og segir dreifingu byggðarinnar dýra og tímafreka, auka umferð, veikja almenningssamgöngur, auka tafatíma í umferðinni og gegn árangri í loftslagsmálum. Flokkurinn segir að samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins feli í sér „mikil tækifæri til góðrar borgarþróunar og uppbyggingar íbúðahúsnæðis“ og að þar séu þéttingarreitir meðfram Borgarlínu „í fremstu röð“.
Áhersla Samfylkingarinnar er á að „endurnýjun og uppbygging hefjist innan svæða sem liggja nærri Borgarlínu og þeim innviðum sem henni munu fylgja, svo sem í Skeifu, Múlahverfi og Mjódd.“
Lægri leikskóla- og frístundagjöld fyrir tekjulága
Samfylkingin segist vilja „lækka gjöld í leikskólum og frístund hjá fjölskyldum með lágar tekjur og auka samræmi í gjaldtöku milli leikskóla og frístundar“. Flokkurinn vill að hjón og sambúðarfólk með lágar tekjur njóti afsláttar af leikskólagjöldum til jafns við einstæða foreldra, öryrkja og námsmenn.
Í leikskólamálum segir flokkurinn stefnt að því að byrja að taka á móti 12 mánaða börnum í leikskóla strax á komandi hausti, eins og borgin tilkynnti í fréttatilkynningu í byrjun mars, og að stefnt skuli að því að „meðalaldur barna við inntöku lækki úr 19 mánuðum í 13-14 mánuði“.
Samfylkingin var einnig með það á stefnuskrá sinni fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar að koma 12-18 mánaða börnum inn á leikskóla. „Á næsta kjörtímabili viljum við klára uppbyggingu leikskólanna í eitt skipti fyrir öll með því að bjóða 12 til 18 mánaða börnum leikskólapláss í fyrsta skipti,“ sagði í stefnu flokksins frá vorinu 2018, eins og hún var sett fram á vefsíðunni Ég kýs.
Í útdrætti um stefnumál á heimasíðu Samfylkingarinnar í Reykjavík segir reyndar að Samfylkingin hafi sagt fyrir síðustu kosningar að brúa ætti bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla „á innan við sex árum“ og því sé Reykjavíkurborg nú „á undan áætlun“ í þessum efnum.
Samfylkingin vill hækka frístundastyrk barna upp í 75 þúsund krónur á ári og upp í 100 þúsund krónur á ári fyrir börn sem koma af heimilum með lágar tekjur. Einnig vill flokkurinn að ónýtt fjármagn frístundastyrks innan hverfa renni í frístundasjóð, sem borgarmiðstöð viðkomandi hverfis geti varið til að styðja tekjulágar fjölskyldur við að mæta kostnaði við frístundir barna.
Vilja klára Borgarlínu og umferðarstokka
Borgarlína og umferðarstokkar á Miklubraut og Sæbraut voru áberandi í kosningabaráttu Samfylkingarinnar 2018 og þessi mál eru öll hluti af samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins sem undirritaður var á kjörtímabilinu.
Um Borgarlínu segir Samfylkingin að það eigi að „klára dæmið“ og að styðja þurfi við verkefnið á öllum stigum á næstu árum, auk þess sem flokkurinn vill að tímaáætlanir Borgarlínu verði endurskoðaðar með áherslu á að tengingar Efra-Breiðholts og Keldnalands.
Stokkarnir eru svo sagðir „lykilverkefni“ í að bæta umferð og vinna gegn neikvæðum áhrifum hennar á nálæga byggð. Samfylkingin vill að skoðað verði „hvort áhugavert geti verið að í stað þess að Miklabraut fari í stokk að Kringlusvæðinu þá verði gerð jarðgöng sem endi við Grensásveg“. Öll framtíðarþróun í samgöngumálum segir Samfylkingin að ætti að „miða að því að auka frelsi í samgöngum og draga úr ofuráherslu á einkabílinn“.
Fjárfestingar innan hverfa sem þegar eru til
Samfylkingin leggur sem áður segir áherslu á þéttingu byggðar. Flokkurinn segist vilja halda áfram að vinna eftir fjárfestingaráætluninni Græna plani borgarinnar og „fjárfesta fyrir tugi milljarða í þeim hverfum sem við búum í nú þegar“ og segir hugmyndir um „stóraukna útþenslu og dreifingu byggðar“ ganga gegn þeirri áætlun. „Það er nefnilega ekki hægt að gera bæði, setja tugmilljarða í gróin hverfi og leggja tugmilljarða í ný hverfi frá grunni,“ segir á kosningavef Samfylkingarinnar.
Kjarninn mun halda áfram að fjalla um framlögð stefnumál framboða í Reykjavíkurborg á næstu dögum.