Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir fór yfir áhrif kórónuveirufaraldursins á börn hér á landi á upplýsingafundi dagsins. Bólusetning 5-11 ára barna hófst í Laugardalshöll í vikunni og vildi sóttvarnalæknir fara yfir atriði sem tengjast annars vegar börnum sem veikjast af COVID-19 og hins vegar að því sem snýr að bólusetningum barna. Eitt barn á fyrsta ári er á Landspítala vegna COVID-19 sem stendur.
Alvarlegar aukaverkanir hjá börnum eftir COVID þrisvar sinnum hærri en eftir bólusetningu
Þórólfur segir öll rök hníga að því að bólusetning barna sé nauðsynleg til að koma í veg fyrir alvarleg veikindi þeirra.
Hins vegar hefur eitt barn, 17 ára, þurft að leggjast inn vegna aukaverkana eftir bólusetningu. Þá hafa sex tilkynningar borist um alvarlegar aukaverkanir sem tengjast bólusetningu af um 22 þúsund bólusetningum eða 0,03%.
„Þannig er ljóst að hér á landi eru alvarlegar aukaverkanir hjá börnum eftir COVID að minnsta kosti þrisvar sinnum hærri en eftir bólusetningu. Þetta er í samræmi við reynslu og uppgjör erlendis, bæði í Bandaríkjunum og Danmörku,“ sagði Þórólfur í yfirferð sinni á upplýsingafundinum.
Leggur mögulega fram hertar aðgerðir á næstu dögum
Varðandi stöðuna á faraldrinum almennt segir Þórólfur að til greina komi að hann leggi til hertar aðgerðir í vikunni. Núgildandi sóttvarnareglur voru framlengdar um þrjár vikur í gær og eru í gildi til 2. febrúar en það gæti mögulega breyst. Þórólfur horfir samt sem áður björtum augum til framtíðar.
„Þó útlitið sé kannski ekki bjart akkúrat þessa stundina varðandi COVID-19 hér á landi þá held ég að til lengri tíma litið sé útlitið bjart og þá er ég að tala um næstu vikur eða mánuði. Með útbreiddri bólusetningu sem kemur í veg fyrir alvarleg veikindi en einnig að hluta í veg fyrir smit þá getum við sætt okkur við ákveðinn fjölda smita í samfélaginu þannig að almenn veikindi sligi ekki heilbrigðiskerfið og ýmsa innviði. Okkur mun þannig takast að auka hér ónæmi í samfélaginu hægt og bítandi sem gerir okkur kleift að slaka á ýmsum takmörkunum í samfélaginu.“