Börn allt niður í þriggja ára verða bólusett gegn COVID-19 í Kína á næstunni ef áform kínverskra yfirvalda ganga eftir. Aðeins á Kúbu hafa svo ung börn verið bólusett en þar hafa börn allt niður í tveggja ára verið bólusett. Í flestum öðrum ríkjum miðast bólusetning barna við 12 ára aldur enn sem komið er.
Bólusetning ungra barna er liður í stefnu kínverskra yfirvalda að koma í veg fyrir útbreiðslu kórónuveirunnar á ný. Héraðsyfirvöld í að minnsta kosti fimm héruðum í Kína hyggjast hefja bólusetningu barna á aldrinum 3-11 ára á næstunni. Af 1,4 milljörðum Kínverja hefur rúmlega milljarður verið bólusettur.
„Ég vil að minnsta kosti ekki að hann verði fyrstur“
Tvö bóluefni, Sinopharm og Sinavac, hafa fengið markaðsleyfi hjá þessum yngsta aldurshópi en bæði koma frá kínverskum framleiðendum og eru aðeins notuð í Kína. Wang Lu, sem býr í borginni Fuzhou í suðurhluta Fujian-héraðs, er óviss hvort hún vilji láta bólusetja þriggja ára gamlan son sinn, aðallega þar sem hún er óviss um öryggi bóluefnisins. „Ég vil að minnsta kosti ekki að hann verði fyrstur,“ segir Lu í samtali við AP-fréttastofuna. Wu Cong, móðir sjö ára stúlku í Shanghai, telur bólusetningu gegn COVID-19 ekki vera frábrugðna hefðbundinni inflúensubólusetningu. „Ég hef ekki miklar áhyggjur.“
Bólusetning barna undir 12 ára aldri er hafin víða í Asíu, meðal annars í Kambódíu þar sem sérstök bólusetningarherferð barna á aldrinum 6-12 ára hófst 17. september eftir að smitun í landinu fór að fjölga.
Yfir 3,8 milljarðar jarðarbúa hafa fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni gegn COVID-19 eða um helmingur íbúa heimsins. Tölfræðiupplýsingar um bólusetningar barna liggja ekki fyrir en stór hluti ríkja heimsins hafa hafist handa við bólusetningu 12 ára og eldri og nú er litið til næsta aldurshóps fyrir neðan: 5-11 ára. Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna (FDA) vinnur „myrkranna á milli við að gera bólusetningar aðgengilegar börnum yngri en 12 ára“, líkt og segir í tilkynningu frá stofnuninni frá því á föstudag. Ráðgjafar bandarískra stjórnvalda á sviði heilbrigðismála komu saman í dag til að ræða hvort veita eigi bóluefni Pfizer gegn COVID-19 bráðabirgðaleyfi fyrir börn á aldrinum 5-11 ára. Anthony Fauci, yfirmaður smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna, hefur áður gefið út að hafist verið handa við að bólusetja 5-11 ára börn í fyrri hluta nóvember og að stór hluti þeirra verði fullbólusettur í lok árs.
Bólusetning barna 6-11 ára hefjist hér á landi eftir áramót
Á Íslandi eru tæp 64% barna á aldrinum 12-15 ára fullbólusett en bólusetning þessa hóps hófst í ágúst. Ekkert smit hefur greinst í þessum aldurshópi. Stjórnvöld hér á landi greindu frá því í gær að þess er vænst að fljótlega verði unnt að bjóða börnum á aldrinum 6-11 ára bólusetningu með bóluefni Pfizer. Rannsóknum á notkun bóluefnisins fyrir þennan aldurshóp er lokið og er reiknað með að leyfi fyrir notkun lyfsins handa börnum á þessum aldri verði veitt fyrir áramót.