Tæplega áttatíu prósent bólusettra Bandaríkjamanna telja það óbólusettum löndum sínum að kenna að faraldur COVID-19 er nú aftur í vexti vestanhafs, samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar sem bandaríski miðillinn Axios vann í samstarfi við könnunarfyrirtækið Ipsos.
Að sama skapi telja innan við tíu prósent þeirra sem ekki hafa af einhverjum ástæðum þegið bólusetningu gegn COVID-19 að þeir sjálfir og aðrir óbólusettir landar þeirra beri sök á því að smitum fjölgi og ný afbrigði veirunnar hafi náð útbreiðslu í Bandaríkjunum.
Rúmur þriðjungur bólusettra Bandaríkjamanna er síðan á því að kenna megi Donald Trump fyrrverandi forseta landsins að einhverju leyti um að staðan sé að versna og litlu færri telja að kenna megi íhaldssömum fjölmiðlum um að faraldurinn sé í vexti.
Óbólusettir Bandaríkjamenn eru hins vegar líklegri til þess að telja sökina liggja hjá erlendum ferðamönnum sem koma til Bandaríkjanna (36,9 prósent), meginstraumsfjölmiðlum (27,1 prósent) og löndum sínum sem halda í ferðalög út í heim (22,7 prósent). Rúm 20 prósent óbólusettra segja síðan að kenna megi Joe Biden forseta Bandaríkjanna um að faraldurinn sé í vexti.
Í frétt Axios um niðurstöður könnunarinnar eru vitnað til túlkunar Cliff Young, samskiptastjóra rannsóknarfyrirtækisins Ipsos á tölunum. Hann segir niðurstöðuna endurspegli þá skörpu skautun sem er á milli andstæðra fylkinga í stjórnmálum vestanhafs og hefur smitast inn í umræðu um faraldurinn og bólusetningar.
„Ef þetta hefði átt sér stað fyrir 30 eða 40 árum síðan, þá ættum við ekki við sama vanda að etja,“ hefur Axios eftir Young. Hann segir að það sem við sé að etja sé „veggur alvarlega villandi upplýsinga“ sem komi í veg fyrir að staðreyndir skili sér til hluta almennings.
70 prósent fullorðinna hafa fengið eina sprautu
Á mánudaginn náðist markmið Biden-stjórnarinnar um að bólusetja 70 prósent fullorðinna Bandaríkjamanna að minnsta kosti einu sinni. Biden hafði stefnt að því að þessu marki yrði náð fyrir þjóðhátíðardaginn 4. júlí, en það tók næstum mánuði lengri tíma en áætlað var.
Afar misjafnt er eftir ríkjum hversu hátt hlutfall almennings hefur kosið að þiggja bólusetningu og staðan á spítölum í ríkjum á borð við Flórída er orðin erfið. Þar voru yfir 10 þúsund manns inniliggjandi með COVID-19 um helgina og stefndi sá fjöldi óðfluga fram úr því þegar staðan var hvað verst síðasta sumar.
Yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem eru að leggjast inn á spítala eða látast eftir að hafa greinst með COVID-19 í Bandaríkjunum þessa dagana eru einstaklingar sem hafa ekki þegið bólusetningu, af einhverjum ástæðum.
Hið sama er að koma í ljós þar rétt eins og annarsstaðar, bólusetningar virka vel til þess að koma í veg fyrir alvarleg veikindi af völdum COVID-19 hjá þorra fólks.
Þvingun vinnustaðar myndi einungis láta þriðjung þiggja sprautu
Leiðtogar í stjórnmálum vestanhafs klóra sér nú í kollinum og íhuga hvaða leiðir eru færar til þess að fá fleiri til þess að þiggja bóluefni. Þegar er búið að boða af hálfu Biden-stjórnarinnar að brátt þurfi allir starfsmenn bandaríska alríkisins að sýna fram á bólusetningu eða sætta sig ella við að þurfa að ganga með grímu eða skila inn reglulegum COVID-prófum og fjöldamörg stórfyrirtæki munu gera kröfu um að starfsmenn verði bólusettir, ætli þeir sér að snúa aftur á skrifstofuna í haust.
Slíkar þvingunaraðgerðir af hálfu vinnuveitenda leggjast þó öfugt í óbólusetta Bandaríkjamenn. Samkvæmt könnuninni frá Axios og Ipsos sagðist einungis um þriðjungur óbólusettra að þeir myndu þiggja bóluefni ef vinnuveitandi þeirra krefðist bólusetningar.
Það var þó hærra hlutfall óbólusettra en sögðust viljugir til þess að þiggja bólusetningu ef slík yrði gerð að skilyrði fyrir því að fá að sækja íþróttaviðburði eða tónleika eða ferðast með flugvélum.
Fleiri virðast tilbúnir að hugsa sig um
Axios og Ipsos hafa framkvæmt kannanir sambærilegar þessari með reglulegu millibili frá því í upphafi árs. Í frétt Axios um niðurstöðurnar er dregið fram að hlutfall þeirra sem hafa tekið hvað einarðasta afstöðu gegn bólusetningum fari lækkandi og sé nú 15 prósent í stað þess að hafa haldist nokkuð stöðugt í kringm 20 prósent frá því í febrúar og fram í júní.
Það þýðir, samkvæmt frétt miðilsins, að þrátt fyrir að um 30 prósent fullorðinna segist ekki vera tilbúin að láta bólusetja sig, gæti ögn stærri hluti þeirra nú verið tilbúinn að láta sannfærast um kosti bólusetninga.