Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar í umhverfis- og skipulagsráði borgarinnar telja „óheppilegt að lögreglan lýsi því yfir hvað eftir annað að ekki verði sektað fyrir fyrir notkun nagladekkja áður en nagladekkjatímabilið hefst“ og segja að sú spurning vakni óhjákvæmilega „hvort lögreglan hafi heimild til að fara á svig við lögin“.
Þetta kemur fram í bókun fulltrúanna frá fundi umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar í gær, en þar var rætt um nagladekkjanotkun í Reykjavíkurborg og það átak sem staðið hefur yfir undanfarnar vikur, með auglýsingum og fræðsluefni, til að beina íbúum fremur í átt að öðrum kostum en nagladekkjum við val á vetrardekkjum.
Fleiri á nagladekkjum snemma hausts nú en árið 2001
Í gögnum sem lögð voru fyrir fundinn kom fram að talning sem borgin fól verkfræðistofunni Eflu að framkvæma á nagladekkjanotkun í viku 42 (17. október til 23. október) sýndi að 15 prósent bifreiða í borginni voru komnar á nagladekk.
Þetta er mun hærra hlutfall en á sömu viku árið 2001, er einungis þrjú prósent bifreiða voru komin á nagladekk, en frekari samanburður á milli ára um stöðuna á þessum tíma árs virðist ekki til staðar.
Í kynningunni sem lögð var fyrir kjörna fulltrúa af starfsmönnum borgarinnar kom þó fram að byrjunin á þessum vetri teldist ekki góð, með tilliti til nagladekkjanotkunar.
Nagladekkjanotkun hefur aukist frá 2016-17
Samkvæmt nagladekkjatalningum sem framkvæmdar voru fyrir Reykjavíkurborg síðasta vetur voru rétt um 40 prósent bifreiða í borginni á nöglum, frá miðjum nóvember og fram í byrjun mars hið minnsta. Þetta hlutfall hefur hækkað frá vetrinum 2016-17, er um 32 prósent bifreiða í borginni voru á nöglum yfir veturinn.
Ekki er ósennilegt að stóraukinn fjöldi bílaleigubíla í umferð frá þeim tíma eigi þátt í þessari aukningu, en borgin sjálf hefur nefnt það sem líklega ástæðu fyrir auknu hlutfalli bíla á nagladekkjum síðustu ár.
Í bókun fulltrúa meirihlutans í ráðinu sagði að nagladekkjanotkun hefði því miður aukist verulega síðustu árin og að ljóst væri að mikil notkun þeirra í Reykjavík hefði alvarlegar afleiðingar í för með sér, þar sem þau væru stór áhrifaþáttur í svifryksmengun og valdi á bilinu 20-30 sinnum meiri svifryksmengun en venjuleg dekk, auk þess sem verulegur kostnaður skapist vegna slits á malbiki.
Í bókun frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins sagði að þessa neikvæðu þróun í notkun nagladekkja mætti „líklega rekja til óánægju með frammistöðu Reykjavíkurborgar við snjóruðning í húsagötum síðasta vetur, ekki síst í efri byggðum“ og þá þjónustu þyrfti að bæta.
Einnig sagði í bókun fulltrúa flokksins að draga mætti „verulega úr svifryksmengun með því að bæta eiginleika útlagðs malbiks í borginni í því skyni að gera það slitsterkara“ og að lokum þyrfti að „bæta fræðslu um skaðsemi nagladekkjanotkunar í því skyni að draga úr henni“.