Þátttakendur sem stefna á efstu sætin í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, sem hófst í dag og lýkur á morgun, eru nær allir neikvæðir í garð uppbyggingar Borgarlínu sem hágæða almenningssamgöngukerfis á höfuðborgarsvæðinu í þeirri mynd sem unnið er að.
Þetta má lesa í skjali sem Sjálfstæðisflokkurinn birti nýlega með svörum frambjóðenda í prófkjörinu við spurningum sem kjósendur sendu inn.
Þar var spurt hvort frambjóðendurnir væru „fylgjandi Borgarlínu eins og núverandi meirihluti borgarstjórnar setur verkefnið upp“ og einnig var spurningin „Þessi nálgun að fjárfesta milljörðum í strætó á sterum er 19 aldar lausn á 21 aldar vanda, er eitthvað sem veldur mér áhyggjum, hver er sýn frambjóðenda að leysa þennan samgönguvanda?“ borin undir þátttakendur í prófkjörinu.
Hildur segir borgarstjóra þrengja að annarri umferð – Alda hallast að „léttlínu“
Þær Hildur Björnsdóttir og Ragnhildur Alda M. Vilhjálmsdóttir bítast um oddvitasætið hjá Sjálfstæðisflokknum í borginni. Hildur segir í svari sínu við fyrri spurningunni sem nefnd var hér að ofan að hún sé „ekki sammála útfærslum borgarstjóra á Borgarlínu sem miða að því að þrengja að öðrum kostum í samgöngum“.
Um leið segist hún þó vera sammála formanni Sjálfstæðisflokks, þingflokki flokksins auk bæjarstjóra sjálfstæðismanna í öðrum sveitarfélögum um að unnið verði að innleiðingu samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, sem hún segist styðja.
Hildur segir í svari við síðari spurningunni að fólk eigi að „hafa frjálst val um það hvort það fari leiðar sinnar gangandi, akandi, hjólandi eða með almenningsvögnum“ og bætir við að sú hugmynd að velja þurfi einn fararmáta til að notast við öllum stundum sé „hvorki raunhæf né eftirsóknarverð.“
„Ég er jákvæð fyrir betri almenningssamgöngum sem miða að því að tryggja vagna í sérrými, tíðari ferðir og betri biðskýli. [...] Það er vel unnt að tryggja greiðar almenningssamgöngur án þess að þrengja að bílaumferð,“ segir Hildur, sem hefur gagnrýnt það að mögulega standi til að fækka akreinum fyrir almenna umferð á Suðurlandsbraut samhliða uppbyggingu sérrýmis Borgarlínu þar.
Ragnhildur Alda segist ekki fylgjandi Borgarlínu eins og verkefnið hafi verið sett upp, heldur segist hún „hallast að Léttlínu útgáfunni,“ og á þar við hugmyndir um útfærslu Borgarlínu þar sem sérrými fyrir vagnana yrði ekki fyrir miðju heldur í jaðri vega.
Slíkar hugmyndir hafa verið settar fram af hópi sem kallar sig Áhugafólk um samgöngur fyrir alla, sem einnig leggur til að minna fé verði sett í bættar almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu en samgöngusáttmálinn gerir ráð fyrir og þeim mun meira fé í byggingu fjölda nýrra mislægra gatnamóta á höfuðborgarsvæðinu.
Allir sem vilja annað sæti mótfallnir Borgarlínu í núverandi mynd
Fimm frambjóðendur gefa kost á sér í annað sætið í prófkjöri flokksins, þau Marta Guðjónsdóttir, Kjartan Magnússon, Friðjón R. Friðjónsson, Þorkell Sigurlaugsson og Birna Hafstein. Ekkert þeirra er fylgjandi Borgarlínu eins og hún hefur verið lögð upp.
Þau Friðjón og Birna svara því til að þau séu ekki hlynnt Borgarlínu eins og núverandi meirihluti hafi verið að vinna að verkefninu, en Birna segist í svari sínu „vísa í samgöngusáttmálann hvað þetta varðar“.
Marta, Þorkell og Kjartan segjast öll vera andvíg Borgarlínu í þeirri mynd sem verkefnið er lagt upp. Marta fullyrðir að Borgarlína muni ekki leysa umferðarvandann þar sem henni sé ætlað að taka akreinar af annarri umferð, auk þess sem hún sé hreinlega „óraunhæf og kostnaður við hana himinhár“, auk þess sem allt sé á huldu um það hver muni greiða rekstrarkostnað.
Marta segir ennfremur að Borgarlínan sé „tímaskekkja“ þegar haft sé í huga að „við stöndum á þröskuldi byltinga í samgöngum og í gerð farartækja“ auk þess sem Borgarlínan sé ekki einungis samgöngustefna heldur líka skipulagsstefna, sem hún sé alfarið mótfallin. Kallar hún það „aðför að lýðheilsu borgarbúa“ að meginuppbygging íbúðarbyggðar verði meðfram borgarlínu og stofnbrautum.
Kjartan fullyrðir að það væri „auðveldara, fljótlegra, ódýrara og árangursríkara að bæta almenningssamgöngur í Reykjavík með almennri eflingu á núverandi kerfi“ og segir að svokölluð „létt borgarlína“ geti verið málamiðlun. Einnig segir hann að í stað þess að festa sig í „19. aldar lausnum“ ætti Reykjavíkurborg að horfa til nútíðar og framtíðar, á lausnir eins og snjallstýringu umferðarljósa, sjálfakandi ökutæki og sjálfakandi almenningssamgöngur.
Þorkell segir að það þurfi að endurskoða samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, sem gerður var á milli Reykjavíkurborgar, fimm sveitarfélaga þar sem Sjálfstæðisflokkurinn heldur um stjórnartaumana og ríkisstjórnar þar sem Sjálfstæðisflokkurinn fór og fer enn með fjármálaráðuneytið, árið 2019.
Þorkell segir borgarstjóra ennfremur vera að reyna að búa til kransæðastíflu í vegakerfinu í borginni. „Dagur stefnir að því að halda áfram að búa hér til enn meiri kransæðastíflu við hjarta höfuðborgarsvæðisins sem er í ca. 3 km. radíus í kringum Landspítalann. Borgarlína leysir ekki þá þörf sem íbúar hafa til að leysa sínar daglegu ferðaþarfir og hægt er að leggja svokallaða Borgarlínu á fljótlegri, ódýrari og án mikils rasks á gatnakerfi borgarinnar.“
Mislæg gatnamót við Kringlumýrarbraut, Háaleitisbraut, Grensásveg og Lönguhlíð nefnd
Í svari við síðari spurningunni, um lausnir á samgönguvandanum, talar Þorkell fyrir því að sérstökum akreinum fyrir Strætó verði fjölgað hægra megin á götunni, en talar einnig fyrir fleiri mislægum gatnamótum í borginni.
„Setja upp nokkur mislæg gatnamót. Gera Miklubraut að mestu ljóslausa sem er auðvelt verk við Grensásveg, Háaleitisbraut, Kringlumýrarbraut og við Lönguhlíð. Þannig má fjölga talsvert þeim sem nýta almenningssamgöngur en bifreiðar til fólks og vöruflutninga verða alltaf lang algengasta farartækið. Annað er draumsýn fyrir borg eins og Reykjavík þótt ekki væri nema veðráttunnar vegna,“ segir Þorkell í svari sínu.
Í annarri spurningu í sama skjali er spurt sérstaklega um mislæg gatnamót og hvort borgarfulltrúaefnin vilji fjölga þeim. Þar segist Kjartan í svari sínu sömuleiðis vilja sjá mislæg gatnamót gerð þar sem Miklabrautin mætir Kringlumýrarbraut, Grensásvegi og Háaleitisbraut.