Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík, átti ekki von á jafn góðu gengi og niðurstöður borgarstjórnarkosninga sýna. Framsóknarflokkurinn vann sinn stærsta sigur í borginni og fær fjóra borgarfulltrúa en flokkurinn var ekki með fulltrúa í borgarstjórn á síðasta kjörtímabili . Meirihlutinn er fallinn en fær tíu borgarfulltrúa. Tólf þarf til að mynda meirihluta.
Einar sagði á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun að hann ætli að taka því alvarlega að láta málefnin ráða för við myndun meirihluta, verði flokkurinn í þeirri aðstöðu, sem verður að teljast líklegt.
Einar segir niðurstöðuna merki um að fólk vilji breytingar á pólitískri forystu í borginni og segir hann flokkinn tilbúinn að fara inn í meirihlutaviðræður með opnum huga. „Við erum tilbúin að láta gott af okkur leiða og axla pólitíska ábyrgð og veita forystu fyrir þessum breytingum,“ segir Einar. Framsókn ætli að taka daginn til að melta niðurstöðurnar og kosningasigurinn.
Niðurstöðurnar sýni stuðning við borgarlínu og samgöngusáttmála
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík, segir niðurstöðurnar sýna stuðning við borgarlínu og samgöngusáttmála þar sem flokkar sem eru fylgjandi þeim málefnum ná um 60 prósent fylgi. Samfylkingin tapaði tveimur borgarfulltrúum í kosningunum í gær.
„Þetta er kannski svona stóra myndin. Þetta eru margir flokkar og fylgið dreifist. Það þarf að ræða málin og finna út hvernig er hægt að ná meirihluta í kringum áherslur,“ sagði Dagur á Sprengisandi.
Dagur segir að ef meirihlutinn hefði haldið hefði það verið fyrsti kostur að halda samstarfinu áfram. Það sé hins vegar ekki raunin en flokkarnir sem mynduðu meirihluta eftir síðustu kosningar trúi á sömu framtíðarsýn í stórum atriðum. „En þeirri framtíðarsýn deila auðvitað miklu fleiri.“
„Við erum stærst“
Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni, fagnar því að Sjálfstæðisflokkurinn sé áfram stærsti flokkurinn í borginni þó hann hafi tapað tveimur borgarfulltrúum. „Við erum stærst, við vissum það í nokkrar vikur að við myndum ekki ná sama árangri og fyrir fjórum árum, okkur mætti svona mikill vindur í fangið á síðustu vikum og slæmar kannanir. Og við erum svolítið þannig gerð að þegar við fáum vindinn í fangið þá þéttum við raðirnar og gefum enn frekar í,“ sagði Hildur á Sprengisandi. Hún segist þó ekki geta tekið undir greiningu Dags þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hafi alltaf stutt samgöngusáttmála.
Hildur segir að niðurstaða kosninganna sýni að fólk vilji breytingar, nýja forystu. Hún segir í raun ekki skipta máli hver verði borgarstjóri heldur verði málefnin að ráða för. Borgarstjórinn sé sannarlega áhrifamikill en það sé hluti af þeim samningaviðræðum sem eru fram undan að ákveða hver verði borgarstjóri.
Óljós svör um framtíð Dags sem borgarstjóra
Aðspurður hvort hann sé tilbúinn að snúa sér að öðrum störfum í meirihluta en embætti borgarstjóra, líkt og þegar Jón Gnarr varð borgarstjóri þegar hann leiddi Besta flokkinn, segist Dagur ætla að setjast niður með sínu fólki og samstarfsfólki í borgarstjórn og ræða stöðuna. „Það eru ekki til neinar leikreglur um hvernig meirihlutaviðræður eiga sér stað. Við þurfum að nýta tímann vel næstu daga til að mynda meirihluta,“ sagði Dagur á Sprengisandi.
Samfylking, Píratar og Sósíalistaflokkur útiloka samstarf með Sjálfstæðisflokknum
Dagur segir að það verði bara að koma í ljós hvort „löngum og ströngum“ borgarstjórnarferli hans sé lokið. „Núna er það í okkar höndum að ná saman um lykilmálin til að mynda starfhæfan og góðan meirihluta og síðan skipta verkum, þar á meðal því hver verður borgarstjóri.“ Dagur segir það mjög langsótt að Samfylking geti starfað með Sjálfstæðisflokki í borgarstjórn þar sem framtíðarsýn flokkanna sé mjög ólík.
Píratar útiloka sömuleiðis samstarf við Sjálfstæðisflokk. „Einfaldlega vegna þess að okkar helsta baráttumál er baráttan gegn spillingu og við teljum Sjálfstæðisflokkinn ekki vera trúverðugan í því samhengi,“ sagði Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í Reykjavík, í Silfrinu.
Píratar eru eini flokkurinn í núverandi meirihluta sem bætir við sig fylgi. „Það er yndislegt,“ segir Dóra Björt, sem vonar að kjósendur séu að átta sig á að Píratar séu traustsins verðir þar sem flokkurinn hefur bætt við sig borgarfulltrúa í síðustu tvennum kosningum.
Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalista, segir ákall um kjör hinna verst settu hafa skilað flokknum þessu góða gengi en flokkurinn bætir við sig einum borgarfulltrúa. Sanna sér fyrir sér Samfylkingu, Sósíalista, Pírata og Flokk fólksins í borgarstjórn, flokka sem mynda félagshyggjustjórn. „Mér finnst þurfa að vera mjög skýrt í hvaða átt Framsókn stefnir,“ sagði Sanna í Silfrinu.
Sjálfstæðisflokkurinn úthúði ekki öðrum framboðum
Hildur segir ýmsa möguleika í stöðunni sem verði að skoða og hlakkar hún til að setjast að samningaborðinu með öðrum oddvitum. Sjálfstæðisflokkurinn útilokar ekki samstarf við neinn flokk. „Við höfum ekki haft þann sið á að úthúða öðrum framboðum hvað það varðar að geta ekki sest niður við borðið með þeim og unnið með þeim og starfað með þeim þó að hér geri það aðrir í okkar garð auðvitað. En við erum breiðu flokkur og samansatöndum af mjög fjölbreyttu fólki og kunnum að vinna með öðru fólki sem er ekki eins og við, alltaf,“ segir Hildur sem er spennt fyrir komandi samtölum næstu daga.
Oddvitarnir voru að öðru leyti varkárir í umræðum um myndun meirihluta en Dagur og Dóra Björt segja það réttast að fráfarandi meirihluti ræði fyrst saman um næstu skref.