Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, ávarpaði þingmenn í fyrsta sinn í dag eftir að lögregla sektaði Johnson, Carrie Johnson eiginkonu hans og Rishi Sunak, fjármálaráðherra Bretlands, fyrir að vera viðstödd afmælisveislu forsætisráðherra sem fram fór í Downingstræti 10 19. júní 2020.
Eins og búist var við lagði Johnson áherslu á önnur mál, líkt og stríðið í Úkraínu, en Partygate-hneykslið svokallaða, enda var honum frjálst að gera það í þessu fyrsta ávarpi sínu til þingmanna eftir páskafrí. Keir Starmer, leiðtogi Verkamannaflokksins, sá þó til þess að Partygate var rætt og sat hann á fremsta bekk í þingsalnum.
Líkt og Johnson hefur margsagt hvarflaði ekki að honum í eigin afmælisveislu að hann væri að brjóta lög. „Það voru mín mistök og ég biðst innilegrar afsökunar á þeim,“ sagði Johnson í þingsal síðdegis. Hann sagði skilja reiðina og særindi sem hann olli og að almenningur eigi rétt á því að búast við meiru af eigin forsætisráðherra. Verklagi innan forsætisráðuneytisins hefur verið breytt vegna þessa að sögn forsætisráðherra.
Því næst sneri hann sér að stríðinu í Úkraínu og talaði um misheppnaðar ákvarðanir Rússlandsforseta en lofsamaði framgöngu Úkraínuforseta sem hann segir einkennast af hugrekki. Langtímamarkmiðið að mati Johnson hlýtur að vera að styrkja Úkraínu svo Rússar dirfist ekki til að gera árás í líkingu við þessa á ný.
Johnson lauk ávarpi sínu á þeim orðum að starf hans felst í að tryggja öryggi þjóðarinnar og velmegun. „Og það mun ég halda áfram að gera,“ sagði Johnson.
„Þvílíkur brandari,“ voru viðbrögð Starmer, sem sagði afsökunarbeiðni forsætisráðherra loðna, almenningur væri nú þegar búinn að gera upp hug sinn og „tryði ekki orði sem hann segði“. „Hann er óheiðarlegur, ófær um breytingar og dregur alla niður í svaðið með sér,“ sagði Starmer.
Johnson ítrekaði afsökunarbeiðni sína en sagði hann og ríkisstjórnina þurfa að halda áfram og sinna störfum sínum.
Líkti sekt Johnson við stöðumælasekt
Breska lögreglan hefur rannsakað tólf samkvæmi á vegum breskra yfirvalda á þeim tíma sem strangar sóttvarnareglur voru í gildi vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Fyrstu 20 sektirnar voru gefnar út í byrjun mánaðarins en þær telja nú 50 talsins og von er á fleirum. Johnson var búinn að gefa það út að hann hyggðist upplýsa um það yrði hann sektaður. Sem hann og gerði.
Johnson var viðstaddur að minnsta kosti tvö önnur samkvæmi af þeim tólf sem lögregla hefur til rannsóknar. Hann gæti því átt von á fleiri sektum.
Johnson er fyrsti sitjandi forsætisráðherra Bretlands sem er sektaður fyrir að brjóta gegn lögum. Johnson, eiginkona hans og Sunak hafa öll beðist afsökunar og greitt sektina en þingmenn stjórnarandstöðunnar krefjast þess að Johnson og Sunak segi af sér.
Yfir 70 þingmenn Íhladsflokksins hafa lýst yfir stuðningi við Johnson, þar á meðal þingmenn sem áður höfðu krafist afsagnar hans vegna málsins. Nokkrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa einnig lýst yfir stuðningi við Johnson, þar á meðal Brandon Lewis, ráðherra málefna Norður-Írlands, sem hefur líkt sekt Johnson við stöðumælasekt. Talsmaður forsætisráðherra er þó ekki tilbúinn til að taka undir þá viðlíkingu.
Sérstök umræða um Partygate og stöðu forsætisráðherra á fimmtudag
Stjórnarandstöðuflokkarnir halda því statt og stöðugt fram að Johnson hafi afvegaleitt þingmenn af ásettu ráði þegar hann sagði að gildandi sóttvarnareglum hafi ávallt verið fylgt í forsætisráðuneytinu og í viðburðum á vegum þess.
Sérstök umræða um Partygate fer fram á breska þinginu á fimmtudag. Þetta staðfesti forseti þingsins, Lindsay Hoyle, í dag. Málshefjandi verður Keir Starmer, leiðtogi Verkamannaflokksins, sem hefur farið hvað harðast fram í gagnrýni á Johnson.
Í umræðunni munu þingmenn ræða hvort vísa eigi máli forsætisráðherra vegna Partygate til fríðindanefndar þingsins (e. Privileges Committee) og hefja þannig rannsókn á hvort Johnson hafi vísvitandi afvegaleitt þingmenn. Verði það niðurstaðan mun nefndin, sem skipuð er sjö þingmönnum, fjórum þingmönnum Íhaldsflokksins og þremur þingmönnum stjórnarandstöðunnar, meta hvort Johnson hafi af ásettu ráði afvegaleitt þingmenn í umræðum um samkvæmi á vegum stjórnvalda á tímum strangra sóttvarnareglna.
Þingmenn munu í kjölfarið greiða atkvæði um tillögur nefndarinnar, sem gætu meðal annars falist í einhvers konar refsiaðgerðum gegn forsætisráðherra. Litlar líkur eru þó taldar á því að málinu verði vísað til nefndarinnar í ljósi tryggs meirihluta Íhaldsmanna á þinginu. Heimildarmaður úr Verkamannaflokknum segir í samtali við BBC að þingmenn Íhaldsflokksins sem svo mikið sem íhugi að greiða atkvæði gegn rannsókn á máli forsætisráðherra sé að greiða atkvæði með yfirhylmingu.