Breska ríkið, sem yfirtók ríflega 80 prósent eignarhlut í Royal Bank of Scotland í fjarmálakreppunni haustið 2008, hefur hug á því að selja hlutinn nú tæplega sjö árum eftir að það eignaðist hann. Breska ríkið lagði bankanum til 45,5 milljarða punda, eða sem nemur rúmlega níu þúsund milljörðum króna, þegar hann rambaði á barmi gjaldþrots.
Samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins BBC er horft til þess að selja fyrst lítinn hluta af eignarhlut ríkisins ef nægilegur áhugi er fyrir hendi hjá fjárfestum í Bretlandi. Vonir standa til þess að breska ríkið fái peningana sem það setti í bankann og rúmlega það til baka við söluna á hlut ríkisins.
Eign ríkisins í bankanum hefur verið umdeild ekki síst vegna þess að launastefna bankans hefur ekki þótt samræmast launastefnu hjá breska ríkinu.
Í júní síðastliðnum tilkynnti bankinn um 153 milljóna punda tap, sem mátti að mestu leyti rekja til sekta- og sáttargreiðslna vegna lögbrota bankans.