Yfir eitt hundrað breskir fræðimenn á sviði stjórnmála, stjórnsýslu, lögfræði og sérfræðingar í málefnum innflytjenda og flóttamanna, hafa skrifað forsætisráðherra og innanríkisráðherra Bretlands, David Cameron og Theresu May, bréf þar sem þess er krafist að bresk stjórnvöld breyti stefnu sinni og geri miklu meira til þess að hjálpa flóttafólki í Evrópu. Bréfið er birt í New Statesman.
„Við, undirrituð, höfum helgað okkur því að búa til félagslega réttlátan heim. Við verjum ferli okkar í að styðja við og ýta undir rannsóknir, frumkvæði og verkefni sem munu skapa sanngjarnara og réttlátara samfélag fyrir alla. [...] Við teljum að núverandi afstaða ríkisstjórnarinnar í evrópsku flóttamannakrísunni sé misráðin og þarfnist bráðra breytinga,“ segir í upphafi bréfsins.
Stolt hefð fyrir hjálpsemi
Í bréfinu kemur fram að í Bretlandi sé löng og stolt hefð fyrir því að veita þeim skjól sem það þurfi. „Tekið var á móti þúsundum evrópskra gyðinga af stjórnvöldum á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar, og þeim bjargað frá hörmungum fasisma og útrýmingu nasista.“ Þá hafi Bretar verið meðal stofnaðila að Genfarsáttmálanum um flóttafólk, tugum þúsunda hafi verið bjargað undan harðstjórn Idi Amin á áttunda áratugnum og á níunda áratugnum hafi þúsundum verið bjargað frá Víetnam. „Nýlega höfum við gefið þúsundum flóttamanna, sem flúðu átök í Afríku, Miðausturlöndum og annars staðar frá griðarstað.“
Bent er á að ekki þurfi að leita langt til að finna fólk sem hafi notið góðs af þessu. Sumir sitji með forsætisráðherranum og innanríkisráðherranum í þinginu. „Priti Patel, atvinnumálaráðherra ykkar, en foreldrar hans flúðu harðstjórn Idi Amin í Úganda. Nadeem Zahawi, þingmaður Stratford-upon-Avon, sem kom til Bretlands sem níu ára gamalt barn frá Írak, hluti einnar af fjölmörgum fjölskyldum sem flúðu Saddam Hussein.“ Í stjórnarandstöðunni sé svo til að mynda Ed Miliband, en faðir hans hafi náð síðasta bátnum til Bretlands þegar nasistar réðust inn í Belgíu.
„Flóttamenn og afkomendur þeirra hafa lagt gríðarmikið til allra hliða bresks samfélags. Sumir eru frægir innanlands og á alþjóðavettvangi, aðrir leggja bresku samfélagi lið hljóðlega og byggja upp líf fyrir sig og fjölskyldur sínar. Allt þetta fólk á allt sitt undir grundvallargöfuglyndi fyrri forsætisráðherra. Slíkt göfuglyndi þarf nauðsynlega að sýna aftur núna.“
Það er eins og að skilja fólk eftir í brennandi byggingu af því að það að bjarga þeim muni ekki slökkva eldinn. Við þurfum að gera meira til að leysa átökin á þessu svæði. En fyrst verðum við að hjálpa fleirum sem eru settir í hættu vegna þessara átaka.“
Fáránlegur málflutningur
Fræðimennirnir gagnrýna þann málflutning að ekki eigi að hjálpa neinum af því að ekki sé hægt að hjálpa öllum. Það sé einnig engin rökfærsla á bak við það að segjast ekki vilja taka við þeim sem nú þegar hafa flúið til Evrópu, vegna þess að það muni ekki leysa vandann. „Það er eins og að skilja fólk eftir í brennandi byggingu af því að það að bjarga þeim muni ekki slökkva eldinn. Við þurfum að gera meira til að leysa átökin á þessu svæði. En fyrst verðum við að hjálpa fleirum sem eru settir í hættu vegna þessara átaka.“
„Afstaða núverandi stjórnvalda er slæm stefna, slæm stjórnmál og svik við stolta breska hefð. Það er skammarlegt fyrir okkur sem þjóð að við höfum gert svona lítið, og það er greinilegur stuðningur við breytingar á stefnunni alls staðar á hinu pólitíska rófi.“
Í lok bréfsins eru ráðherrarnir hvattir til þess að halda á lífi þeim hefðum sem Bretland hafi haft í heiðri. „Sýnið þeim, sem úthella stuðningi sínum við þá sem eru í sárri neyð en finnst þeir vanmáttugir til hjálpa, að bresk stjórnvöld séu ennþá afl til góðs í heiminum. Við getum gert meira. Við eigum að gera meira. Við verðum að gera meira. Forsætisráðherra og innanríkisráðherra, hlustið á raddir kollega ykkar í Evrópu, raddir kollega ykkar í flokknum ykkar og öðrum flokkum, og raddir kjósenda ykkar þegar við segjum: Leyfið þeim að koma.“