Bresk stjórnvöld reyna hvað þau geta að landa gróðavænlegum samningum í Sádí-Arabíu, þrátt fyrir umfangsmikil mannréttindabrot. Samkvæmt stefnu Breta á að tryggja að samningar sem gerðir eru um öryggis- og dómsmál erlendis séu í samræmi við utanríkisstefnu landsins, sem byggist meðal annars á mannréttindum. Bretar hættu í síðustu viku við að byggja fangelsi í Sádí-Arabíu vegna mannréttindabrota, en þeir eru engu að síður stærsti vopnasali ríkisins.
Skjöl sem Observer hefur séð sýna að bresk stjórnvöld flokka Sádí-Arabíu sem mikilvægan markað, og hvetja fyrirtæki til þess að sækjast eftir viðskiptasamningum í heilbrigðismálum, öryggismálum, varnarmálum og dómsmálum. Margir stærstu samninganna sem gerðir hafa verið við Sáda voru gerðir samkvæmt stefnu stjórnvalda sem reynt hefur verið að halda leyndri. Stefnan snýst um aðstoð í öryggis- og dómsmálum (Overseas Security and Justice Assistance, eða OSJA).
Rannsóknir hafa einnig leitt í ljós að Bretar eru stærsti vopnasali Sádí-Arabíu, og að 36 prósent allra vopna sem flutt eru þangað inn koma frá Bretlandi. Vopn fyrir fjóra milljarða punda hafa verið seld þangað frá því að Íhaldsflokkurinn tók við völdum árið 2010. Á næsta ári verða til að mynda 22 herflugvélar seldar þangað fyrir 1,6 milljarð punda.
„Það er að verða ljósara og ljósara að ráðherrar eru ákveðnir í því að eiga í sífellt nánari samskiptum við alræmdustu mannréttindabrjóta heims,“ segir Maya Foa, yfirmaður hjá bresku mannréttindasamtökunum Reprieve. „Ráðherrar verða að koma hreint fram um það hversu umfangsmiklir samningar okkar við Sádí-Arabíu og önnur slík ríki.“
Mannréttindabrotin tilefni deilna
Yfir hundrað einstaklingar voru teknir af lífi í Sádi-Arabíu á fyrri helmingi þessa árs.
Mál tveggja ungra manna hafa vakið athygli á mannréttindabrotum Sáda undanfarið, en mennirnir, Ali al-Nimr og Dawoud al-Marhoon, voru báðir sautján ára gamlir þegar þeir voru handteknir á mótmælum. Lögmenn þeirra segja jafnframt að þeir hafi verið pyntaðir til að fá fram játningar. Stjórnvöld í Frakklandi, Þýskalandi, Bandaríkjunum og í Bretlandi hafa lýst yfir áhyggjum af þessum dauðadómum.
Það var mál Nimr og mál Karl Andree, sem er 74 ára breskur ríkisborgari sem var dæmdur til 350 svipuhagga fyrir að hafa áfengi í fórum sínum, sem varð til þess að dómsmálaráðherrann Michael Gove ákvað að draga breska ríkið út úr samningi um byggingu fangelsis. Þetta olli deilum vði utanríkisráðherrann Philip Hammond, sem er sagður hafa sakað dómsmálaráðherrann um einfeldni.
Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, hefur óskað eftir því við forsætisráðherrann David Cameron að hann láti gera opinbera og óháða rannsókn á því hvernig OSJA stefnunni er framfylgt. Corbyn segir að með því að vinna í leyni líti þessu stefnumörkun þannig út að hún hjálpi breskum stjórnvöldum að taka með óbeinum hætti þátt í mannréttindabrotum.