Breytingar á yfirstjórn N1 kostuðu félagið 117 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi. Þar er ekki greindur niður kostnaður á hverja breytingu á yfirstjórn en þar skiptir mestu máli uppsögn forstjóra fyrirtækisins, Eggerts Benedikts Guðmundssonar, í febrúar 2015. Árslaun hans voru 55,9 milljónir króna á árinu 2014. Þetta kemur fram í árshlutareikningi N1 sem var birtur í gær.
Þrír úr framkvæmdastjórn félagsins hættu störfum hjá N1 á ársfjórðungnum. Fyrst hætti Halldór Harðarson, sem hafði verið framkvæmdastjóri markaðssviðs, í byrjun febrúar til að gerast markaðsstjóri Arion banka. Ekki var ráðinn nýr framkvæmdastjóri markaðssviðs heldur var búin til ný staða markaðsstjóra sem var ekki hluti af yfirstjórn. Við því starfi tók Þyrí Dröfn Konráðsdóttir, sem hafði verið sérfræðingur á markaðssviði N1, í mars síðastliðnum.
Eggert Benedikt Guðmundsson, sem hafði verið forstjóri N1 frá árinu 2012, komst skömmu síðar að samkomulagi um að láta af störfum hjá félaginu. Við starfinu tok Eggert Þór Kristófersson, fyrrum fjármálastjóri N1. Margrét Guðmundsdóttir, stjórnarformaður N1, sagði í samtali við vb.is að forstjóraskiptin hefðu verið gerð til að lækka kostnað við yfirstjórn hjá félaginu. Í ársreikningi N1 fyrir árið 2014 kom fram að Eggert Benedikt hafi verið með 55,9 milljónir króna í árslaun á því ári, eða 4,7 milljónir króna á mánuði. Eggert Þór, sem tók við forstjórastarfinu, var hins vegar með 33,8 milljónir króna í árslaun árið 2014 fyrir að sinna starfi fjármálastjóra. Pétur Hafsteinsson var í apríl ráðinn nýr framkvæmdastjóri fjármálasviðs N1 og tók þar með við því starfi sem Eggert Þór hafði gengt.
Ingunn Sveinsdóttir, sem hafði verið framkvæmdastjóri einstaklingssviðs N1, sagði síðan upp störfum í byrjun mars. Guðný Rósa Þorvarðardóttir var ráðinn í starfið í apríl.
Í árshlutareikningnum segir orðrétt: „Breytingar voru einnig gerðar á framkvæmdastjórn og er heildarkostnaður við breytingar á yfirstjórn félagsins 117 m.kr. Kostnaðurinn var gjaldfærður að fullu á tímabilinu.“ Launakostnaður án breytinga við yfirstjórn félagsins lækkaði hins vegar um 7,6 prósent á milli ára. Framlegð af vörusölu jókst um 12,8 prósent, markaðshlutdeild N1 jókst á ársfjórðungnum og hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði var 248 milljónir króna.