Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir fjölmiðla gegna mikilvægu hlutverki í lýðræðissamfélagi og eigi því að njóta sérstakrar stöðu með tilliti til laga. Hún segir að sér hafi verið brugðið þegar hún frétti að fjórir blaða- og fréttamenn hafi verið kallaðir til yfirheyrslu hjá lögreglu með réttarstöðu sakborninga vegna fréttaflutnings af „skæruliðadeild“ Samherja. Hún segir hins vegar ekki geta rætt einstök atriði málsins þar sem ógjörningur sé að segja til um hvaða lagaákvæði eigi við í málinu.
Þetta kemur fram í skriflegu svari forsætisráðherra til Kjarnans, sem hefur frá því á miðvikudag óskað eftir viðbrögðum ráðherra við máli blaðamannanna fjögurra.
Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Kjarnans og Arnar Þór Ingólfsson, blaðamaður miðilsins, hafa fengið stöðu sakbornings við rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi, sem er staðsett á Akureyri, á meintu broti á friðhelgi einkalífsins. Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður á Stundinni, og Þóra Arnórsdóttir, ritstjóri Kveiks, eru sömuleiðis með stöðu sakbornings í málinu og höfðu einnig verið boðuð í yfirheyrslu vegna málsins.
Til stóð að yfirheyrslurnar hæfust í þessari viku en þeim hefur verið frestað eftir að eftir að Aðalsteinn krafðist úrskurðar Héraðsdóms Norðurlands Eystra um lögmæti aðgerðanna.
Ítrekaði mikilvægi fjölmiðla í lýðræðissamfélagi
Katrín var innt eftir viðbrögðum í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag og svipar svörum hennar þar mjög til svara við fyrirspurn Kjarnans.
Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, spurði forsætisráðherra hvaða augum hún líti á það að lögreglan ákveði að yfirheyra blaðamenn vegna umfjöllunar þeirra um „einn stærsta aðila í íslenskum sjávarútvegi, þann sama og sætir rannsókn vegna alvarlegrar spillingar og mútubrota, bæði hér á landi og erlendis“.
Katrín sagði að Halldóra þyrfti ekkert að efast um heilindi hennar í því að styðja við fjölmiðla og nefndi í því samhengi frumvarp sem hún lagði sjálf fram árið 2011 sem varð að fjölmiðlalögum þar sem undirstrikuð var vernd heimildarmanna og styrkt réttarstaða blaðamanna. Þá nefndi hún einnig tillögu sem samþykkt var á þinginu 2019 um endurskoðuð upplýsingalög sem styrkti stöðu fjölmiðla, sem og tillögu frá 2020 um vernd uppljóstrara sem var sömuleiðis samþykkt. „Ég lít svo á að enginn þurfi að velkjast í vafa um mína afstöðu til mikilvægis fjölmiðla í lýðræðissamfélagi,“ sagði Katrín á þingi í dag.
Halldóra sagði lýðræði þrífast á opinni samfélagsumræðu og að frjáls fjölmiðlun væri hornsteinn þeirrar umræðu. „Almenningur hefði aldrei komist á snoðir um Samherjamálið, Klaustursmálið, uppreisn æru málið, Panama-skjölin, Borgunarmálið og fleiri mikilvæg mál ef ekki hefði verið fyrir vinnu blaðamanna við að upplýsa almenning,“ benti hún á.
Fráleit lagatúlkun á ákvæði hegningarlaga
Halldóra sagði jafnframt að nú virðist sem svo að Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra, þar sem Samherji á höfuðstöðvar, hafi „tekið það upp hjá sjálfri sér að beita fráleitri lagatúlkun á ákvæði hegningarlaga, sem breytt var til að vernda kynferðislega friðhelgi, til að skilgreina blaðamenn sem sakborninga í máli sem varðar meint brot á friðhelgi einkalífs.“
Vísar hún þannig í breytingar sem gerðar voru á hegningarlögum í fyrra, meðal annars 229. grein sem er meðal annarra tveggja greina sem blaðamennirnir fjórir eru með stöðu sakbornings fyrir að hafa brotið gegn. Með breytingunum sem gerðar voru í fyrra var 229. grein meðal annars breytt þannig að hún hljóðar nú svona: „Hver sem í heimildarleysi verður sér úti um aðgang að gögnum eða forritum annarra sem geymd eru á tölvutæku formi skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári.“
Í áliti allsherjar- og menntamálanefndar vegna þeirra breytinga sagði að ákvæðið eigi ekki við „þegar háttsemin er réttlætanleg með vísan til almanna- eða einkahagsmuna. Er hér m.a. litið til þess að ákvæðið hamli ekki störfum og tjáningarfrelsi fjölmiðla, m.a. í þeim tilvikum þegar þeir fá aðgang að gögnum eða forritum sem hefur verið aflað í heimildarleysi og geti varðað almannahagsmuni.“
Undir álitið og breytingartillöguna skrifuðu fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna, Samfylkingar, Pírata, Viðreisnar, Framsóknarflokks og Miðflokks, eða allir sem sæti áttu í nefndinni.
Vill ekki tjá sig um einstök atriði málsins
Forsætisráherra segir það ógjörning að segja til um hvaða lagaákvæði eigi við í máli blaða- og fréttamannanna þar sem lögreglan hefur lítið gefið upp um tilefni rannsóknar annað en að um sé að ræða meint brot á friðhelgi einkalífsins. „Því er erfitt fyrir mig sem ráðherra að tjá mig um einstök atriði þessa máls á meðan það er til rannsóknar. Ég vil þó segja það að mér var auðvitað brugðið yfir fréttum að fjórir blaðamenn hafi verið kallaðir til yfirheyrslu með réttarstöðu sakborninga í tengslum við fréttaflutning sem þau stóðu fyrir,“ sagði Katrín á þingi í dag, sem og í svari við fyrirspurn Kjarnans.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur tjáð sig um málið og Halldóra spurði forsætisráðherra hvort hún hefði áhyggjur yfir því að yfirlýsingar Bjarna grafi undan frelsi fjölmiðla?
Katrín svaraði spurningunni ekki beint en sagðist treysta því að lögreglan væri meðvituð um mikilvægi fjölmiðla og að málefni stórfyrirtækja sem eru til rannsóknar eru mál sem eiga brýnt erindi til almenning.
Bjarni gagnrýndi í síðustu viku fjölmiðlaumfjöllun um boðaðar yfirheyrslur fjórmenninganna. Í Facebook-færslu sem hann birti á þriðjudag segir hann að svo virðist sem önnur vinnubrögð og lögmál eigi við hjá fjölmiðlum í umfjöllunum um lögreglumál þar sem blaðamenn eru undir en hjá almennum borgurum. Hann spurði einnig hvort fjölmiðlamenn væru of góðir til að mæta og svara spurningum lögreglu eins og almennir borgarar og hvernig það gæti talist alvarlegt mál að lögregla óski eftir því að þeir gefi skýrslu.
Blaðamannafélagið og Félag fréttamanna svöruðu svo þessum spurningum Bjarna í sameiginlegri yfirlýsingu. Í henni bentu fagfélögin á að vissulega væru blaða- og fréttamenn sem einstaklingar jafnir öðrum að lögum, t.d. ef þeir eru grunaðir um ölvunarakstur, fjársvik eða ofbeldisbrot. „Um störf þeirra gegnir hins vegar öðru máli. Um þau gilda önnur lög og reglur en um önnur störf, vegna hlutverks þeirra.“
Bjarni fann sig knúinn til að svara félögunum og sagði í færslu á Facebook á fimmtudag segir að viðbrögð við færslu hans fyrr í vikunni hafi ekki snúist um það sem hann reyndi að ávarpa. „Hver stjórnarandstæðingurinn og blaðamaðurinn á eftir öðrum þurfti að flýta sér svo í umræðuna að það var sem viðkomandi hefði ratað á rangar dyr í dómshúsinu,“ segir Bjarni í færslu sinni og segir hann, að á þessu stigi málsins, sé „engin innistæða fyrir uppþoti vegna boðunar í skýrslutöku“.
Rannsóknaraðgerðir gegn fjölmiðlum geta haft fælingaráhrif
Katrín segist treysta því að lögreglan sé meðvituð um mikilvægi fjölmiðla í lýðræðislegu þjóðfélagi og að málefni sem tengjast stórfyrirtækjum sem eru til rannsóknar og framgöngu þeirra í tengslum við hana eru mál sem eiga brýnt erindi við almenning.
„Það held ég að eigi algjörlega að liggja ljóst fyrir. Ég treysti því líka að lögreglan sé mjög meðvituð um það að allar rannsóknaraðgerðir sem beinast gegn fjölmiðlum geta haft fælingaráhrif og því eigi ekki að fara af stað nema ríkt tilefni sé til og meðalhófs sé gætt,“ sagði forsætisráðherra á þingi í dag.
Tveir þeirra blaðamanna sem eru með stöðu sakbornings í rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi eystra starfa á Kjarnanum.