Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem gaf það út að hann hygðist kveðja stjórnmálin eftir að hafa ekki náð tilskyldum árangri í prófkjöri flokksins í Reykjavík á dögunum, segist nú óviss um hvort hann ætli að hætta.
Í samtali við Þórarinn Hjartarson, stjórnanda hlaðvarpsins Ein pæling, segir Brynjar að mjög hart hafi verið gengið að honum um að halda áfram í pólitík og taka það sæti sem hann náði í prófkjörinu, sem ætti að verða þriðja sætið í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu.
Brynjar sóttist eftir 2. sæti í prófkjörinu, sem hefði dugað honum til þess að leiða listann í öðru hvoru kjördæminu.
Hann gefur það ekki út í hlaðvarpinu hvort hann ætli að halda áfram, heldur segist hann ætla að „sjá hvernig málin þróast“ og „bíða rólegur“. Hann segist ennfremur undrandi á þeim mikla stuðningi sem hann hafi fengið frá sjálfstæðismönnum víða um land um að reyna að ná endurkjöri til þings.
„Eins og einhverjum þyki ég mikilvægur ennþá“
„Það er eins og einhverjum þyki ég mikilvægur ennþá,“ segir Brynjar í þættinum og lætur að því liggja að þrýstingur á hann um að taka sæti á lista hafi verið svo mikill síðustu daga að hann sé orðinn „boginn í baki“.
Helstu leiðtogar flokksins, bæði Bjarni Benediktsson formaður og Guðlaugur Þór Þórðarson oddviti í Reykjavík, hafa sagt opinberlega að þeir óski þess Brynjar endurskoði ákvörðun sína um að hætta í stjórnmálunum.
Brynjar segir í viðtalinu að mikið hafi verið smalað inn í prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík af mótframbjóðendum hans og þar hafi fullt af vinstrimönnum verið að greiða atkvæði. Fólk sem ekki komi til með að kjósa flokkinn í haust.
Hann segist aðspurður ekki hafa verið sár eftir að úrslit í prófkjörinu lágu fyrir. „Ég var bara fúll, það var auðvitað ég sem stofnaði fýlupúkafélagið,“ sagði hann. En síðan hafi hann áttað sig á því að úrslitin voru ekki jafn slæm og hann taldi í fyrstu – honum hefði ekki verið hent út úr mögulegu þingsæti.
Til gamans má geta að ef Brynjar ákveður að halda áfram í stjórnmálunum væri það ekki í fyrsta sinn sem hann hættir við að hætta. Fyrir nokkrum árum gaf hann það út að hann væri hættur á Facebook. En þar er hann enn.