Búið er að ná samkomulagi um takmörkun á kjarnorkuáætlun Írana eftir margra ára samningaviðræður. Kjarnorkueftirlitsmenn frá Sameinuðu þjóðunum munu fá víðtækan aðgang að Íran samkvæmt samkomulaginu og í staðinn verður einhverjum alþjóðlegum viðskiptaþvingunum gegn landinu aflétt. Samningurinn kveður á um að Íranar hægi á kjarnorkuáætlun sinni, dragi úr auðgun úrans og lofi að smíða ekki kjarnorkusprengjur.
Búist er við því að greint verði frekar frá innihaldi samkomulagsins síðar í dag.
Utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, Federica Mogherini, segir samkomulagið vera vonarglætu fyrir allan heiminn. „Þetta er ákvörðun sem getur opnað nýjan kafla í alþjóðasamskiptum.“ Utanríkisráðherra Írans, Mohammad Javad Zarif, tók í sama streng, sagði að nú opnaðist nýr kafli vonar og að samkomulagið sé sögulegt. Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, fagnaði samkomulaginu líka. Hann vonist til þess og trúi því að þetta samkomulag muni hafa jákvæð áhrif á samskipti og öryggismál í Miðausturlöndum. Þetta gæti því orðið mikilvægt innlegg til að tryggja frið og stöðugleika. Barack Obama Bandaríkjaforseti mun tjá sig um málið klukkan 11 að íslenskum tíma.
Benjamin Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, hefur fordæmt samkomulagið og segir það slæmt á sögulegan mælikvarða. Nú fái Íranir auðvelda leið til þess að fara að framleiða kjarnorkuvopn og það muni fjármagn flæða inn til landsins. Hann hefur hins vegar fengið á sig gagnrýni innanlands fyrir að hafa mistekist algjörlega í sínum samskiptum og samningaviðræðum.
Íranar hafa alltaf sagt að kjarnorkuáætlun þeirra sé friðsömu og ekki til þess að smíða kjarnorkusprengjur.
Samningaviðræðurnar milli Bandaríkjanna, Bretlands, Frakklands, Kína, Rússlands og Þýskalands annars vegar og Írans hins vegar hófust árið 2006.