Búist er við að ríkissaksóknari muni tilkynna um niðurstöðu sína í lekamálinu svokallaða fyrir miðjan ágúst, samkvæmt heimildum Kjarnans. Niðurstaða embættisins getur verið á þrjá vegu: það getur ákveðið að ákæra í málinu, fella það niður eða vísa því aftur til lögreglu til frekari rannsóknar.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur rannsakað lekamálið svokallaða síðan í febrúar. Málið snýst um það að einhver lét tveimur fjölmiðlum, mbl.is og Fréttablaðinu, í té óformlegt minnisblað með persónuupplýsingum um þrjá nafngreinda einstaklinga í nóvember 2013. Einn þessarra einstaklinga var hælisleitandinn Tony Omos. Fram hefur komið í opinberum dómsskjölum að lögreglan hafi rökstuddan grun að starfsmaður innanríkisráðuneytisins hafi lekið minnisblaðinu. Fjölmiðlar hafa síðar greint frá því að sá starfsmaður er Gísli Freyr Valdórsson, annar aðstoðarmanna Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra.
Enginn hefur gengist við því að hafa lekið
Alls höfðu átta einstaklingar vitneskju um tilurð minnisblaðsins: skrifstofustjóri, þrír lögfræðingar ráðuneytisins, ráðuneytisstjóri, Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra og tveir pólitískir aðstoðarmenn hennar. Allir innan þess hóps sem hafa verið yfirheyrðir hafa neitað því að hafa lekið minnisblaðinu til fjölmiðla.
Rannsakendur reyndu að fá Sunnu Ósk Logadóttur, fréttastjóra mbl.is, til að skýra frá því hver hafi lekið minnisblaðinu til fjölmiðilsins. Hæstiréttur hafnaði þeirri kröfu þeirra og lekamálið var í kjölfarið sent til ríkissaksóknara sem þarf að taka ákvörðun um næstu skref í því.
Afar óvenjulegt er að lögregla reyni að fá trúnaði blaðamanna við heimildarmenn aflétt fyrir dómstólum. Samkvæmt heimildum Kjarnans mat lögreglan það sem svo að staðfesting blaðamanna á því hver hefði lekið minnisblaðinu væri mjög mikilvæg í sönnunarfærslu í málinu. Sú staðfesting fékkst ekki þar sem þeir blaðamenn sem eiga í hlut hafa neitað að upplýsa um hvaðan lekinn kom og dómstólar hafa neitað að skikka þá til þess.
Fundir með lögreglustjóra og gagnrýni á seinagang
Lekamálið tók nýja beygju í síðastliðinni viku þegar DV hélt því fram á forsíðu sinni að Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, hafi ákveðið að leita eftir nýju starfi vegna þess að hann upplifði þrýsting frá Hönnu Birnu vegna lekamálsins. Í kjölfarið óskaði Umboðsmaður Alþingis eftir því með bréfi að Hanna Birna svaraði því til hvort hún hafi fundað eða átt samskipti við Stefán vegna lekamálsins. Því bréfi var svarað í gær. Þar sagðist Hanna Birna hafa átt fundi með, og samtöl við Stefán, en neitaði að hafa þrýst á hann. Hún hafi þó gagnrýnt seinagang rannsóknarinnar við Stefán. Lesa má frétt Kjarnans um bréfið í heild sinni hér.
Í bréfi sínu til umboðsmanns Alþingis segir Hanna Birna meðal annars að langur rannsóknartími hafi verið bagalegur fyrir sig. „Þegar rannsókn málsins hófst gaf ég út þá yfirlýsingu að ég myndi ekki tjá mig um málið fyrr en henni væri lokið, enda ekki við hæfi að ráðherra lögreglumála tjáði sig opinberlega um rannsókn á meðan hún stæði yfir. Meðal annars af þessari ástæðu hefur sá langi tími sem rannsóknin hefur tekið verið bagalegur og t.a.m. takmarkað möguleika mína til að svara ítrekuðum árásum sem ég hef orðið fyrir á opinberum vettvangi.“
Þar sem niðurstaða ríkissaksóknara er yfirvofandi ætti Hanna Birna að fá tækifæri til að tjá sig um málið á allra næstu vikum.
Enginn farið fram á að Hanna Birna tjái sig ekki
Kjarninn greindi hins vegar frá því þann 6. maí síðastliðinn að hvorki lögregla né ríkissaksóknari hafi farið þess á leit við Hönnu Birnu að hún tjái sig ekki opinberlega um lekamálið. Það er því hennar ákvörðun, en ekki krafa rannsóknaraðila, að tjá sig ekki. Í frétt um málið frá þeim tíma segir: „Og þá er fráleitt að lögregluyfirvöld hafi bannað Innanríkisráðherra að tjá sig um málið. Ef lögregla hefur áhyggjur af því að einstaklingar tjái sig um mál sem eru til rannsóknar, með rannsóknarhagsmuni að leiðarljósi, hefur lögregla það eina úrræði að krefjast gæsluvarðhalds yfir viðkomandi. Hanna Birna Kristjánsdóttir Innanríkisráðherra má því og getur tjáð sig um málið kjósi hún svo. Það hefur hún hins vegar ekki gert. Þá eru möguleg rök um að hún geti ekki tjáð sig um lögreglurannsókn sem yfirmaður lögreglumála í landinu ansi haldlítil, þar sem hún kaus sjálf að víkja ekki sæti þrátt fyrir að ráðuneyti hennar væri til rannsóknar“. Lesa má fréttina í heild sinn hér.
Hægt er að lesa dóm Hæstaréttar, og úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur, í málinu hér.