Fyrsta opinbera heimsókn Davids Cameron forsætisráðherra Bretlands til Jamaíku þykir hafa byrjað brösuglega fyrir hann, þar sem stjórnvöld þar í landi hafa krafist þess að Cameron hefji viðræður um bætur vegna þáttar Breta í þrælahaldi. Aðgerðarsinnar hafa einnig kallað eftir því að hann biðjist persónulega afsökunar á þrælahaldi forföður síns á nítjándu öld.
Samtök sem kalla eftir bótum fyrir þrælahald segjast hafa rakið ætterni forsætisráðherrans. „Forfeður hans voru þrælaeigendur og græddu á þrælahaldi,“ segir Bert Samuels, talsmaður samtakanna.
Portia Simpson Miller, forsætisráðherra Jamaíka, ræddi bæturnar á formlegum fundi með Cameron í gærkvöldi, stuttu eftir að hann kom til eyjunnar. Hún sagði eftir fund þeirra að Jamaíkubúar vildu ræða við Breta um málið, sem væri af augljósum ástæðum viðkvæmt.
Cameron minntist hins vegar ekkert á þrælahaldið eða bætur í sínum ummælum eftir fundinn, heldur talaði bara um að hann hefði snúist um framtíðarviðskipti landanna tveggja auk þess sem hann talaði vel um sögulegar tengingar milli þeirra. „Við erum að tala um framtíðina,“ sagði hann við breska blaðamenn um málið þegar hann var á leið til eyjunnar.
Blaðamannafélag Jamaíku hefur lagt fram formlega kvörtun vegna þess að hann neitaði að taka við spurningum frá blaðamönnum eftir fundinn.
Þetta er fyrsta opinbera heimsókn bresks forsætisráðherra til Jamaíku í 14 ár og umræðan um bætur fyrir þrælahaldið hefur skyggt á annað sem heimsókninni tengist.
Vegna þess að Cameron minntist ekki á málið fyrr var mikill þrýstingur á að hann talaði um það þegar hann ávarpaði þingið í dag. Hann talaði um þrælahaldið og sagði það hræðilegasta tímabil sögunnar, sem ekki hafi átt neinn rétt á sér í siðuðu samfélagi. Hann sagði hins vegar að það væri kominn tími til að komast yfir þessa sársaukafullu sögu. Hann talaði ekkert um bætur eða neitt slíkt.
Í heimsókn sinni hefur Cameron hins vegar tilkynnt um 300 milljóna punda aðgerðir fyrir ríki í karabíska hafinu, meðal annars styrki til að styrkja innviði eins og vegi og brýr. Þá ætla Bretar að verja 25 milljónum punda í byggingu fangelsis á Jamaíka svo að hægt verði að senda glæpamenn frá ríkinu, sem eru dæmdir í Bretlandi, þangað. Yfir 600 Jamaíkubúar eru í fangelsum í Bretlandi.