Nýr vísisjóður á vegum íslenska sprota- og vaxtasjóðsins Crowberry Capital hefur lokið fjármögnun. Sjóðurinn ber heitið Crowberry II og nemur um 11,5 milljörðum króna. Þetta kemur fram í frétt á vefsíðu Bloomberg sem birtist í morgun.
Samkvæmt fréttinni mun sjóðurinn einbeita sér að fjárfestingum í norrænum sprotafyrirtækjum í tæknigeiranum á fyrstu stigum fjármögnunar þeirra. Einnig mun sjóðurinn styrkja frumkvöðlastarfsemi sem leidd er áfram af konum.
Davíð Helgason á meðal fjárfesta
Evrópski fjárfestingasjóðurinn (EIF), sem er í eigu evrópskra banka og er stærsti fagfjárfestir vísisjóða í Evrópu, leiðir fjárfestinguna með fjórðungshlut í Crowberry II. Hins vegar koma aðrir fjárfestar einnig að, þar á meðal Davíð Helgason, stofnandi hugbúnaðarfyrirtækisins Unity Technologies.Í síðasta vorhefti Vísbendingar má finna ítarlegt viðtal við Davíð, þar sem hann sagðist ætla aftur til Íslands og einbeita sér að fjárfestingum hérlendis.
Crowberry Capital var stofnað af Heklu Arnardóttur, Helgu Valfells og Jennýju Ruth Hrafnsdóttur árið 2016, en þær unnu áður hjá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins. Sjóðurinn fjármagnar nú fjölda íslenskra sprotafyrirtækja, líkt og leikjaframleiðendurna 1939 Games og Mainframe, fjártæknifyrirtækin Lucinity og Monerium og gagnastjórnunarfyrirtækið Avo.
Í samtali við Bloomberg segir Crowberry að þær vilji stuðla að fjölbreytni í nýsköpunarumhverfinu, en 5 af þeim 15 fyrirtækjum sem sprotasjóðurinn fjármagnar hafa konu í stöðu framkvæmdastjóra. Crowberry segir svo að mikil gróska væri í nýsköpunarumhverfinu hérlendis þessa stundina. Sjóðurinn bætti einnig við að kallað væri eftir því að Norðurlöndin legðu sitt af mörkum til að taka þátt í þeim mikla vexti sem á sér stað í stafrænni þróun á heimsvísu.