Meirihluti atvinnuveganefndar Alþingis leggur til að Fiskistofa fái heimild til þess að sekta þá útgerðaraðila sem trassa það að skila stofnuninni vigtar- og ráðstöfunarskýrslum um allt að eina milljón króna á dag og að fallið verði frá því að samanlagðri heildarupphæð slíkra sekta nokkurt hámark.
Þetta kemur fram í breytingartillögum meirihlutans við frumvarp Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra, sem varðar eftirlit Fiskistofu. Í frumvarpi ráðherra var gert ráð fyrir því að dagsektirnar yrðu 30 þúsund krónur á dag og að hámarki 1,5 milljón króna – sem samsvaraði 50 dagsektardögum.
Mögulegar sektir voru ekki í neinu samhengi við efnahagslegan styrkleika og stærð útgerðaraðila og gerði Samkeppniseftirlitið verulegar athugasemdir við það í umsögn sinni um þingmálið, enda ljóst að 30.000 króna dagsektir væru ekki að fara að hafa nokkur fælingaráhrif á fyrirtæki sem velta tugmilljörðum á ári.
Til þessa lítur atvinnuveganefnd, en í nefndaráliti meirihlutans segir að nauðsynlegt sé að „Fiskistofa búi yfir fullnægjandi úrræðum til þess að knýja á um t.d. afhendingu gagna og upplýsinga“. Vill nefndin því að stofnunin fái heimild til þess að leggja á dagsektir sem geti verið á bilinu 10 þúsund krónur til ein milljón króna á dag og heimild til þess að líta til fjárhagslegs styrkleika útgerðaraðila við álagningu sektanna.
Hámark dagsekta er svo fellt á brott, sem áður segir, og segir meirihluti nefndarinnar að hámarkaði eins og það hafi verið í frumvarpinu hafi vart haft varnaðaráhrif.
Heimilt verði að falla frá álögðum dagsektum
Meirihluti atvinnuveganefndar lítur þó einnig til athugasemda frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi þess efnis að með því að fella niður óinnheimtar dagsektir þegar útgerðaraðilinn veitir Fiskistofu umbeðnar upplýsingar „skapist hvati til breyttar hegðunar.“ Meirihlutinn leggur þannig til að Fiskistofu verði heimilt að fella niður dagsektir eftir á, ef aðilar veiti síðar þær upplýsingar sem Fiskistofa vill fá.
„Meiri hlutinn áréttar að hér er um að ræða heimildarákvæði en ekki skyldu sem þarf ávallt að beita á grundvelli réttarreglna stjórnsýsluréttar um jafnræði og málefnaleg sjónarmið,“ segir um þetta atriði í nefndaráliti meirihlutans.
Þurfa að setja tilkynningu á vefinn þegar drónar fara á loft
Í frumvarpi Svandísar var fjallað um notkun Fiskistofu á fjarstýrðum loftförum við eftirlit, en eins og Kjarninn hefur fjallað um hefur notkun stofnunarinnar á drónum við eftirlit með brottkasti leitt til þess að slíkum málum hefur stórfjölgað. Síðan að eftirlit með drónum hófst í upphafi árs 2021 hefur brottkast sést hjá um 40 prósentum þeirra báta sem flogið hefur verið yfir.
Meirihluti atvinnuveganefndar lætur þess getið að í umsögnum um málið hafi komið fram gagnrýni á þetta ákvæði frumvarpsins, þess efnis að gengið væri of nærri friðhelgi einkalífs einstaklinga með „leynilegri vöktun á bátum og skipum“.
Í nefndarálitinu segir að rætt hafi verið í nefndinni hvort mögulegt væri að „kveða á um tilkynningarskyldu Fiskistofu um eftirlit með fjarstýrðum loftförum“ og að bent hafi verið á að „slík skylda getur dregið úr fælingarmætti eftirlitsins og markmiðum þess“.
„Meiri hlutinn bendir hins vegar á að verið sé að veita Fiskistofu heimild með lögum til að sinna eftirlitsskyldum sínum með nýrri tækni og um sé að ræða veigamikla þróun á framkvæmd eftirlits Fiskistofu. Meiri hlutinn telur því eðlilegt að stíga varlega til jarðar þegar um er að ræða nýtingu nýrrar tækni við eftirlit með fiskveiðum og telur sanngjarnt að Fiskistofa gefi út almenna tilkynningu áður en hún hefur eftirlit, t.d. á vef Fiskistofu, en ekki er gert ráð fyrir að tilkynningarnar verði svæðisbundnar eða afmarkaðar með tilteknum hætti, svo sem tímamörkum“.
Fiskistofa mun því þurfa að gefa út tilkynningu um að drónaeftirlit með fiskveiðum sé að fara að hefjast, en stofnunin þarf ekki að segja frá því hvar eftirlitið mun eiga sér stað né hversu lengi það mun vara.
Samkvæmt breytingartillögu meirihluta nefndarinnar myndi standa í lagatextanum: „Fiskistofa skal tilkynna með opinberum hætti um fyrirhugað eftirlit með fjarstýrðum loftförum.“