Dagur. B Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur og oddviti Samfylkingarinnar, ætlar að gefa kost á sér í sveitastjórnarkosningunum í maí. Þessu greindi hann frá í viðtali á Rás 2 í morgun. Dagur var í sóttkví í síðustu viku og sagðist að því tilefni ætla að bíða með yfirlýsingar um framhald sitt í pólitík þar til henni lyki.
Í viðtalinu í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun sagðist Dagur mögulega hafa tekið aðra ákvörðun um framboð sitt fyrir ári síðan en þá varð hann fyrir harðri gagnrýni með auglýsingum fjársterkra aðila sem beindust sérstaklega að honum. Einnig var skotið á bíl hans fyrir utan heimili hans. Árásin hafði meiri áhrif á hann en hann vildi viðurkenna í fyrstu. Í viðtalinu sagði hann þau hjónin hafa hætt að fara í gönguferðir á kvöldin í kjölfar hennar.
Dagur hefur setið í borgarstjórn lengur en nokkur annar sem þar situr nú, eða frá árinu 2002, fyrst fyrir Reykjavíkurlistann en síðan fyrir Samfylkinguna. Áður en hann varð borgarstjóri árið 2014 hafði hann einnig verið borgarstjóri í hundrað daga, frá október 2007 til janúar 2008.
Eina skiptið á ferli Dags sem hann hefur setið í minnihluta er kjörtímabilið 2006 til 2010, að undanskildum áðurnefndum 100 dögum, en miklar sviptingar voru í borgarstjórn á þeim árum og alls fjórir meirihlutar myndaðir.
Samfylkingin hefur ákveðið að bindandi flokksval verði notað til að velja í efstu sex sætin á lista flokksins í Reykjavík, en það mun fara fram 12.-13. febrúar. Atkvæðisrétt í flokksvalinu hafa bæði flokksmenn og stuðningsmenn flokksins, eldri en 16 ára.