Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík og fyrrverandi varaformaður Samfylkingarinnar, mun ekki bjóða sig fram til formennsku í flokknum á komandi landsfundi hans, sem fram fer í október. Þetta staðfestir Dagur í Fréttablaðinu í dag.
Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur legið undir feldi og íhugað formannsframboð frá því í júní. Hún hefur boðað til fundar með stuðningsmönnum sínum á föstudag þar sem búist er við að hún tilkynnti að hún ætli að taka slaginn.
Enginn annar hefur lýst yfir áhuga á formannsframboði í Samfylkingunni og úr þessu búast viðmælendur Kjarnans ekki við því að Kristrún fái alvöru mótframboð.
Formennska langsótt
Sá eini sem talinn var mögulegur í slíkan slag var borgarstjórinn. Dagur segir hins vegar skýrt í samtali við Fréttablaðið að hann útiloki framboð til formanns. „Ég hef auðvitað skynjað mikinn stuðning. Fólk hefur kallað eftir nýrri ríkisstjórn sem yrði mynduð frá vinstri yfir á miðjuna svipað og í Reykjavík. En ég er að hefja nýtt kjörtímabil í borginni og á ekki sæti á þingi. Þess vegna var langsótt að ég byði mig fram til formennsku í flokknum.“
Þetta er í fullu samræmi við það sem fram kom í fréttaskýringu um stöðu Samfylkingarinnar í Kjarnanum 8. júlí síðastliðinn, þar sem sagði að langlíkegast væri að Kristrún yrði næsti formaður en að Dagur væri ekki að sýna formannsframboði neinn áhuga.
Verður yngsti formaður flokksins frá upphafi
Kristrún er 34 ára hagfræðingur og hóf fyrst stjórnmálaþátttöku í fyrra, þegar hún ákvað að gefa kost á sér til að leiða annað Reykjavíkurkjördæmið fyrir Samfylkinguna í þingkosningunum í september. Áður hafði hún starfað í fjármálageiranum.
Kristrún hefur sérstaklega vakið athygli undanfarið ár fyrir að gefa jafnaðarmannastefnunni dýpt í umræðum um efnahagsmál.
Raunar var byrjað að tala Kristrúnu upp sem næsta formann Samfylkingarinnar nánast samstundis og hún gekk í flokkinn til að bjóða fram fyrir hann í Reykjavík í aðdraganda kosninganna í fyrra. Meðal annars vegna þessa þrýstings fór Kristrún ein í hringferð um landið fyrr á þessu ári og hélt opna fundi með fólki í þeirra heimabyggð, á sama tíma og aðrir þingmenn nýttu kjördæmadaga til að ferðast saman um landið til að hitta kjósendur.
Verði Kristrún næsti formaður Samfylkingarinnar verður hún lang yngst til að gegna því embætti. Það met átti Árni Páll Árnason áður, en hann var 46 ára við embættistöku (Margrét Frímannsdóttir, sem var talsmaður flokksins í árdaga hans var reyndar yngri, 44 ára).
Í síðustu könnun Gallup á fylgi stjórnmálaflokka mældist Samfylkingin með 13,7 prósent fylgi, eða 3,8 prósentustigum meira en flokkurinn fékk í fyrrahaust. Það myndi þýða að flokkur yrði fjórði stærsti flokkur landsins ef kosið yrði í dag á eftir Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki og Pírötum.