Dönsk yfirvöld hafa ákveðið að hætta að nota bóluefni Janssen. Frá þessu segja bæði Politiken og Ekstra Bladet í dag og hafa eftir heimildum að heilbrigðisráðherrann Magnus Heunicke hafi sagt þingmönnum allra flokka frá þessu á fundi í danska þinginu í dag.
Politiken segir frá því að stjórnvöld hafi áður áætlað að þetta komi til með að seinka lokadegi dönsku bólusetningaráætlunarinnar um þrjár vikur, en Danir höfðu pantað heilar átta milljónir skammta af bóluefni Janssen. Einungis þarf einn skammt af bóluefni Janssen.
Danir ákváðu að bíða með að hefja bólusetningu með bóluefni Janssen eftir að Bandaríkin settu bóluefnið tímabundið á hilluna þann 13. apríl, í kjölfar þess að örfá tilfelli sjaldgæfra blóðtappa greindust í kjölfar þess að átta milljón manns höfðu fengið bólusetningu með efninu. Næstum öll tilfellin voru hjá konum undir fimmtugu og létust þrjár vegna þessara sjaldgæfu aukaverkana.
Bandaríkjamenn stöðvuðu og héldu áfram en Danir ætla ekki að byrja
Nú virðist ljóst að hléið verður varanlegt í Danmörku, en Bandaríkjamenn hófu aftur notkun á bóluefninu frá Janssen, sem vestanhafs er talað um sem bóluefnið frá Johnson & Johnson, þann 24. apríl. Dönsk yfirvöld eru því búin að taka bæði bóluefni AstraZeneca og Janssen úr opinberum bóluefnaáætlunum sínum.
Ekstra Bladet segir þó frá því í frétt sinni að dönsk heilbrigðisyfirvöld hafi ekki útilokað að bóluefni sem ekki er lengur hluti af opinberu bóluefnaáætluninni gætu staðið ákveðnum hópum til boða, ef þeir vilji. En um það þyrfti að taka ákvarðanir á sviði stjórnmálanna. Politiken segir frá því sama.
Aukinn kraftur hefur verið í bólusetningu Dana undanfarnar vikur rétt eins og hér á landi. Þar eru nú tæplega 11,5 prósent landsmanna orðin fullbólusett og 23,4 prósent til viðbótar hafa fengið að minnsta kosti eina sprautu.