„Að ferðast er að lifa og þess vegna fljúgum við,“ sagði Mette Frederiksen forsætisráðherra í nývarpsávarpi sínu til dönsku þjóðarinnar þar sem hún kynnti fyrirheit ríkisstjórnarinnar um að hætta notkun á jarðefnaeldsneyti í öllu innanlandsflugi fyrir árið 2030. Hún viðurkenndi þó að útfærsla markmiðsins liggi ekki ljós fyrir.
Frederiksen sagði í ávarpi sínu ekki vilja einblína á kórónuveiruna heldur dásamlegu Danmörku og öll þau stóru tækifæri sem blasa við. Tækifærin felast einna helst í viðbrögðum við loftslagsvánni að mati Frederiksen. Loftslagsmarkmið Dana felast meðal annars í að draga úr kolefnislosun um 70 prósent fyrir árið 2030, samanborið við losun árið 1990.
„Þegar önnur lönd heimsins eru of sein að bregðast við verður Danmörk að taka forystuna setja markið hátt,“ sagði Frederiksen. Hún viðurkenndi að það mun reynast erfitt að ná „grænu innanlandsflugi“ en rannsakendur og fyrirtæki vinni í kapp við tímann að úrlausnum.
Meðal fyrirtækja sem vinna að lausnum sem falla inn í áætlanir Dana er flugvélaframleiðandinn Airbus sem hefur tilkynnt um vetnisknúnar flugvélar sem verða teknar í notkun fyrir árið 2035. Ef vetnið er framleitt með endurnýjanlegri orku gæti þetta verið leiðin fyrir Dani til að ná markmiðum um jarðefnaeldsneytislaust innanlandsflug. Ekki er þó ljóst hvort tæknin verði til staðar, og kostnaður viðráðanlegur, fyrir árið 2030.
Markmið um græn innanlandsflug eru ekki alveg ný af nálinni. Svíar hafa sett sér sams konar markmið fyrir 2030 og gera sér einnig vonir um að hætta notkun jarðefnaeldsneytis í millilandaflugi fyrir 2045. Á sama tíma hyggjast Frakkar banna innanlandsflug þar sem hægt er að ferðast til áfangastaðar með lest á minna en tveimur og hálfri klukkustund.