„Heimsbyggðin er nú í auga stormsins sem delta-afbrigðið hefur valdið,“ sagði Naftali Bennett, forsætisráðherra Ísraels, í sjónvarpsávarpi í gær þar sem hann hamraði á því margsinnis að fólk ætti að láta bólusetja sig. Ein milljón Ísraela sem boðaðir hafa verið í bólusetningu, hafa ekki enn þegið hana.
Bennett fór í ávarpinu yfir hversu miklu meira smitandi delta-afbrigðið væri í samanburði við önnur og sagði veirumagn þeirra sem af því smitast geta verið þúsundfalt á við það sem áður þekktist. Því væru varnir ísraelskra stjórnvalda í „delta-faraldrinum“ eins og hann kallaði hann, nú framsettar í þremur lögum. Í fyrsta lagi bólusetningu og allir eldri en tólf ára eru hvattir til að láta bólusetja sig. Þeir sem neiti eru að sögn forsætisráðherrans að stefna sinni heilsu og annarra í mikla hættu. Hann varaði við því að til útgöngubanns gæti komið á ný ef fram haldi sem horfi í þróun faraldursins. Útgöngubann í fyrri bylgjum varði í samtals 200 daga. Um níu milljónir manna búa í Ísrael.
Prime Minister Naftali Bennett, last night: "Our challenge is clear: That all Israelis who can get vaccinated – will go to get vaccinated. Every citizen aged 12 and older who has no health impediment to getting vaccinated –
— PM of Israel (@IsraeliPM) July 23, 2021
Go get vaccinated."https://t.co/A4Af1dn1EB pic.twitter.com/weWFnkkhof
Fólk verður ekki skyldað í bólusetningu en hins vegar verður frá 8. ágúst tekið fyrir aðgang þeirra að margvíslegri dægradvöl svo sem kvikmyndahúsum, bænahúsum og íþróttaleikvöngum eða hvar þar sem yfir 100 manns eða fleiri geta komið saman, hvort sem er innandyra eða utan. Til að komast inn á slíkar samkomur verða óbólusettir að framvísa neikvæðu COVID-prófi og prófið verður á þeirra eigin kostnað, ekki skattgreiðenda.
Í öðru lagi snúa varnirnar að eldra fólki sem er hvatt til að hitta aðeins barnabörnin utandyra á næstunni og þá með grímu fyrir vitum. „Við viljum hafa landið okkar opið og öruggt,“ sagði hann.
Þriðja lag varnanna er grímuskylda sem verður aftur leidd í lög innandyra. Minnti Bennett á að rannsóknir sýndu að grímur dragi gríðarlega úr smithættu, um allt að 98 prósent.
„Látið bólusetja ykkur,“ sagði hann og endurtók þessa brýningu: „Látið bólusetja ykkur“. Vísindin sýndu að bóluefnin væru að virka, vel á yngra fólk en ekki eins vel á það eldra.
Enn góð vörn gegn alvarlegum einkennum
Heilbrigðisráðuneyti Ísraels greindi frá því í gær að bóluefni Pfizer-BioNTech veitti, samkvæmt nýrri rannsókn, um 40 prósent vörn gegn sýkingu og mildum einkennum COVID-19. Niðurstaðan er unnin út frá gögnum sem safnað hefur verið síðastliðinn mánuð eða frá því delta-afbrigðið hóf að dreifast í landinu.
Sýnatökurnar sem rannsóknin byggir á gefa þó ekki rétta mynd af virkni bóluefnisins almennt því þær voru flestar gerðar í tengslum við hópsýkingar og meðal eldra fólks. Aðeins lítill hluti gagnanna eru úr skimunum meðal yngra og bólusetts fólks. Sérfræðingar telja því ekki hægt að draga almennar ályktanir út frá niðurstöðunum. Samkvæmt sömu gögnum er vörn bóluefna gegn alvarlegum einkennum og sjúkrahúsinnlögnum en mikil eða á bilinu 88-91 prósent.
Tæplega 10 þúsund manns eru með COVID-19 í Ísrael og hefur fjöldi tilfella að undanförnu verið um og yfir 900 dag hvern.