Heilu veggirnir þakktir ljósum. Blikkandi sem skipta litum. Risastórar jólabjöllur og ljósakrónur sem hæfa myndu höllum konunga. Vélrænir jólasveinar sem bugta sig og beygja og reka jafnvel upp hrossahlátur: Hó, hó, hó!
Jólin eru hátíð ljóss og friðar segir einhvers staðar. Friðurinn er úti í Úkraínu, þökk sé Rússum, og það hernaðarbrölt hefur nú leitt til gríðarlegra verðhækkana á hvers kyns orku í Evrópu. Gasreikningurinn hefur margfaldast, enda rússneskt gas frekar látið flæða til Kína og því af skornum skammti – og rándýrt – í Evrópu. Þetta hefur dómínóáhrif á allt orkukerfið: Meira rafmagn frá annars konar orkugjöfum þarf að nota til hvers lags hluta. Og það er ekki óþrjótandi og hin mikla eftirspurn hefur skotið verðinu upp í hæstu hæðir.
Við þessu reyna nú stjórnvöld í ríkjum Evrópu að bregðast. Rætt er um verðþök og fleira þar fram eftir götunum, enda myndi orkureikningurinn annars sliga heimili, ýta þúsundum inn í fátækt.
Danir, sem eru innan Evrópusambandsins, hafa ekki farið varhluta af orkukreppunni, eins og hún er kölluð. Kreppu sem mun aðeins harðna er líður á veturinn. Stjórnvöld ræða viðbrögð, niðurgreiðslur og verðþök, en almennir borgarar og fyrirtæki velta fyrir sér hvernig þau geti sparað orku. Hvernig þau geti lækkað sína reikninga en einnig gert sitt til að eftirspurnin minnki – sem aftur gæti almennt lækkað verðið.
Þrátt fyrir að enn séu 102 dagar til jóla hafa nokkrar verslanir, verslunarmiðstöðvar og hótel ákveðið að kveikja ekki á íburðarmiklum jólaskreytingum sem síðustu ár hafa í hugum margra verið táknrænar fyrir hátíðina. Það verður því að öllum líkindum ekki eins bjart yfir Danmörku um næstu jól.
Eigendur Salling, sem eru dæmigerðar fata- og snyrtivöruverslanir í bæði Álaborg og Árósum, ætla ekki að kveikja á sínum þekktu jólaljósum. Sömu sögu er að segja um eigendur Magasin sem reka sjö verslanir víðsvegar um landið. Og þá hefur Hótel d‘Angleterre í Kaupmannahöfn ákveðið að gera slíkt hið sama. Signe Thorup, upplýsingafulltrúi hótelsins, segir þetta gert af einni ástæðu: Til að spara orku. „Þetta er ákvörðun sem okkur fannst erfitt að taka. En hún er sú rétta miðað við þær aðstæður sem nú eru uppi.“
Rekstraraðilar Tívolísins í Kaupmannahöfn segja að jólunum verði ekki aflýst þótt reynt verði að ganga eins hægt og þeir telja unnt í orkusparnaði. „Þið erum alltaf að endurskoða þessi mál og núna erum við til dæmis að skoða hvort að hægt verði að draga úr birtumagninu,“ segir Torpen Plank, upplýsingafulltrúi tívolísins. Í gildi séu ennfremur góðir samningar við raforkusala svo að höggið verður ekki eins þungt fyrir skemmtigarðinn og annars hefði orðið. Í lok næsta árs sé svo stefnt að því að stór hluti af rafmagni sem garðurinn þarfnast komi frá sólarorku.
Og almenningur er líka tilbúinn að færa fórnir í ástandinu, jafnvel þótt það þýði minni birtu í dimmasta skammdeginu. Fredensgade í bænum Hinnerup á Jótlandi hefur verið rómuð fyrir jólaskreytingar í aldarfjórðung. Íbúar við götuna taka sig ávallt saman og setja upp stórkostlega jólaljósasýningu. Ekki hefur enn verið tekin ákvörðun um að hverfa frá þessari rótgrónu hefð en hins vegar segir einn íbúanna í samtali við Danska ríkisútvarpið að hann telji að skreytingarnar ættu að vera lágstemmdari þessi jólin. „Ég persónulega velti því fyrir mér hvort maður geti leyft sér að eyða svona miklum peningum í þetta núna þegar það eru margar fjölskyldur í vanda vegna hækkandi orkureikninga.“ Hann segir að allir verði að leggjast á eitt og að það muni jafnvel þýða að stóru ljósasýningunni í Fredensgade verði aflýst þetta árið.
Íbúar við Angolaveg í Amager í Kaupmannahöfn hafa þegar ákveðið að draga verulega úr uppsetningu jólaljósanna. Sú gata hefur lengi keppt við Fredensgade um mest skreyttu götu Danmerkur. „Angolavegur verður ekki sjálfum sér líkur þessi jólin,“ segir einn íbúinn við DR. „Við ætlum að draga mjög úr skreytingum.“
Jólaljósin voru kannsi orðin yfirdrifin, myndu einhverjir segja, og orkusóun sem þeim fylgir mikil. En orkusóun á sér víðar stað, m.a. í matvöruverslunum. Opnir kælar þurfa t.d. mun meira rafmagn en lokaðir. Forsvarsmenn verslunarkeðjunnar Coop hafa bent á að með því að setja hurðir á kælana sparist 40 prósent orka. Nú þegar orkureikningarnir hafa hækkað mikið eru sífellt fleiri verslanir að taka þessi mál til endurskoðunar.