Þingmaður Pírata spurði dómsmálaráðherra á Alþingi í dag um verklag lögreglu og sérsveitar vegna ábendinga frá almenningi þar sem vopn koma við sögu. Ástæðan er útkall lögreglu um helgina þar sem vopnaður maður reyndust vera börn í kúrekaleik.
Lögreglu barst tilkynning um vopnaðan mann í Kópavogi á laugardag. Sérsveit lögreglunnar handtók mann vegna málsins en fljótt kom í ljós að um misskilning var að ræða. Manninum og fjölskyldu hans var brugðið og var veitt áfallahjálp í kjölfarið. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, spurði Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra um verklag lögreglu í málum sem þessum í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.
Þannig lýsir Arndís Anna, þingmaður Pírata, upplifun barns að aðgerðum lögreglu.
„Gríðarlegt áfall og engu barni bjóðandi“
„Tilefni útkallsins var að sést hafði til barns í kúrekaleik með vinum sínum. Barnið var komið heim til sín og farið að snúa sér að öðru. Sem betur fer var engin hætta á ferð og fjölskyldan gat borðað kvöldmat saman, heil á húfi, líkamlega,“ sagði Arndís Anna í fyrsta óundirbúna fyrirspurnartíma vetrarins á Alþingi í dag. Hún bað þingheim að setja sig í spor barns sem horfir upp á sérsveit lögreglu koma heim til þess og beina skotvopnum að því og fjölskyldu þess. „Að upplifa viðlíka innrás á heimili sitt, svæði sem á að heita öruggt, er augljóslega gríðarlegt áfall og engu barni bjóðandi.“
Beindi hún fyrirspurn sinni að dómsmálaráðherra og spurði hann hvort lögregla og sérsveit hennar fylgdu ákveðnu verklagi þegar brugðist er við ábendingum frá almenningi.
„Í kjölfar þessara atburða og í samhengi við önnur alvarleg atvik sem orðið hafa á síðustu vikum og mánuðum þar sem sérsveit lögreglunnar og börn koma við sögu vil ég beina þeirri spurningu til hæstvirts dómsmálaráðherra hvort ekki séu fyrir hendi einhverjar verklagsreglur sem lögregla og sérsveit hennar fylgja þegar brugðist er við ábendingum frá almenningi og hvort í ráðuneytinu sé einhver vinna í gangi við endurskoðun á þeim?“ spurði Arndís Anna.
Búum í samfélagi þar sem vopnaburður er að verða víðtækari
Verklagsreglur hjá lögreglunni þegar gripið er til vopna eru mjög ítarlegar að sögn dómsmálaráðherra. Hann sagðist ekki þekkja einstök dæmi. „En þetta dæmi sem hér var lýst er sorglegt en við getum alltaf átt von á því að slíkt hendi,“ sagði dómsmálaráðherra.
„Við búum í samfélagi þar sem að vopnaburður er að verða víðtækari heldur en hann hefur verið áður,“ hélt ráðherrann áfram og vísaði í fjölda útkalla þar sem bregðast þarf við vopnaburði.
Jón gerði öryggi lögreglumanna einnig að umtalsefni og sagði að við aðstæður sem þessar sé öryggi þeirra líka ógnað. „Lögreglumenn eiga líka sínar fjölskyldur. Lögreglumenn vilja líka koma heilir heim úr sinni vinnu. Og ég bið bara um skilning fyrir það fólk sem vinnur þessi mikilvægu störf í samfélaginu, skilning á aðstæðum þeirra.“
Manninum og fjölskyldu veitt áfallahjálp
Í tilkynningu lögreglu frá því á laugardag segir að fljótlega eftir handtöku mannsins hafi komið í ljós að um mistök væru að ræða. Manninum og fjölskyldu hans hafi að vonum verið brugðið við aðgerðir lögreglu og kallað var eftir áfallahjálp til að takast á við „þessa óþægilegu atburði dagsins“, líkt og sagði í tilkynningu lögreglu.
Jón sagði að ekki verði hjá því komist að mistök, líkt og urðu á laugardag, geti átt sér stað í hita leiksins. „Auðvitað er það okkar markmið með þjálfun og verklagsreglum að takmarka slíkt eins og hægt er,“ sagði Jón.
Verklagsreglur eru í endurskoðun að sögn dómsmálaráðherra og er sú vinna gerð í náinni samvinnu við lögreglu, sem er, að sögn ráðherra, mjög umhugað um að hafa strangt og öflugt regluverk í kringum vopnaburð lögreglunnar.
Arndís Anna sagði það hryggja hana að heyra að mistök eins og þessi geti alltaf átt sér stað. „Það gleður mig hins vegar að heyra að það sé einhvers konar vinna í gangi í ráðuneytinu við endurskoðun á þessum verklagsreglum. Það er að sjálfsögðu hlutverk lögreglunnar að bregðast við tilkynningum sem henni berast en það má ekki bara vera einhvern veginn eða eftir hendingu hverju sinni. Það hlýtur að vera grundvallaratriði að í störfum eina aðilans sem hefur lögum samkvæmt heimild til að beita almenna borgara viðlíka valdi gildi skýrar reglur um þá valdbeitingu og að lögreglan fái viðhlítandi þjálfun,“ sagði Arndís Anna.