Reykjavíkurborg taldi það nauðsynlegt í október í fyrra að skoðun á því hvort útvega þyrfti búnað og gefa út leiðbeiningar um notkun stafrænna ökuskírteina á kjörstöðum þyrfti að fara fram tímanlega fyrir komandi kosningar. Þetta kemur fram í bréfi sem sent var frá skrifstofustjóra borgarstjórnar til dómsmálaráðuneytisins en Kjarninn hefur bréfið undir höndum. Í bréfinu var einnig bent á það að ökuskírteinin voru talin auðfalsanleg. Þá óskaði Reykjavíkurborg eftir leiðbeiningum varðandi nýtingu stafrænna ökuskírteina til auðkenningar á kjósendum í komandi kosningum.
„Af fjölmiðlum að dæma hafa verið gefnir út tugir þúsunda rafrænna ökuskírteina. Í störfum sínum leitast kosningastarfsfólk Reykjavíkurborgar við að vísa kjósanda aldrei frá kjörstað fyrr en í allra lengstu lög en ábyrgðarkeðja hinna rafrænu ökuskírteina þarf að liggja ljós fyrir ef ætlunin er að taka þau gild á kjörstað. Í Reykjavíkurkjördæmunum eru hátt í 100 kjördeildir og í forsetakosningum sl. sumar mætti áberandi fjöldi kjósenda á kjörstað án skilríkja enda fólk orðið vant því að greiða með snjallúrum og snjallsímum,“ segir meðal annars í bréfinu.
Þar kemur einnig fram að í leiðbeiningum Reykjavíkurborgar séu skilríki með mynd og kennitölu talin fullgild, þar með talin debetkort.
Skanni kynntur til sögunnar vikum eftir að kosning hófst
Kjarninn hafði heimildir fyrir því að slíkt bréf hefði verið sent dómsmálaráðuneytinu í fyrra og óskaði því eftir bréfinu sem og svari við því hvernig dómsmálaráðuneytið hefði brugðist við efni þess.
Í skriflegu svari frá dómsmálaráðuneytinu segir að brugðist hefði verið við ábendingum bréfsins með leiðbeiningum um staðreynslu skírteinanna. „Tæpum mánuði fyrir næstu kosningar bættist síðan við skanni í farsíma sem getur gengið úr skugga um svo óyggjandi sé að stafræn ökuskírteini séu ófölsuð,“ segir í svari ráðuneytisins.
Þrátt fyrir að umræddur skanni hafi verið tilbúinn um mánuði fyrir kosningar þá hefur utankjörfundaratkvæðagreiðsla staðið yfir í lengri tíma, hún hófst þann 13. ágúst. Samkvæmt ráðuneytinu og starfsfólki á kjörstöðum sem Kjarninn hefur rætt við hófst notkun skannans í upphafi síðustu viku.
Starfsfólki kennt að nota skannann á föstudag
Ekki hafa fengist nákvæmari upplýsingar um það hvenær skanninn var tekinn í notkun, en ljóst er að skanninn var ekki notaður í hátt í þrjár vikur til þess að auðkenna þá kjósendur sem framvísuðu stafrænu ökuskírteini á þeim stöðum þar sem hægt er að greiða atkvæði utan kjörfundar. Í samtali blaðamanns við einn starfsmann á kjörstað kom fram að á föstudag hafi farið fram kennsla á notkun skannans á rafrænum fundi. Starfsmaðurinn benti þó á að skanninn hefði verið notaður með góðum árangri frá því í upphafi síðustu viku.
Ekki er hægt að fullyrða um fjölda þeirra kjósenda sem kjósa að gera grein fyrir sér með stafrænu ökuskírteini þegar þeir gengu að kjörborðinu á því tímabili sem skanninn var ekki í notkun, enda er slíkt ekki skráð. Líkt og áður segir mætti „áberandi fjöldi kjósenda á kjörstað án skilríkja“ í síðustu kosningum og því má gefa sér að fjöldi þeirra sem nýtt hafa stafræn ökuskírteini til að kjósa utan kjörfundar sé töluverður.
Kosningasvindl mögulegt fyrir tilkomu skannans
Umræða um stafrænu ökuskírteinin og skanna, eða einhverja aðra lausn til að auðkenna kjósendur sem framvísa slíkum skírteinum, komst í hámæli í síðustu viku í kjölfar greinar sem öryggisfyrirtækið Syndis birti á vef sínum. Í greininni var fjallað um öryggisgalla skírteinanna og í greininni er því beinlínis haldið fram að hægt hafi verið að svindla í kosningunum sem nú eru hafnar utan kjörfundar, áður en skanninn kom til skjalanna.
Fjallað er um nokkrar leiðir sem eru færar til þess að falsa skírteinin. Einfaldasta leiðin er sú að breyta upplýsingum á skírteininu með því að taka skjáskot af því og breyta því sem fram kemur á skírteininu. Það hafi unglingar til að mynda nýtt sér til þess að komast inn á skemmtistaði án þess að hafa til þess aldur, líkt og fjallað var um í frétt á vef Vísi.
Ólíklegt verður að teljast að slíkar falsanir hefðu blekkt starfsfólk kjörstaða því ekki er hægt að skoða bakhlið ökuskírteinanna með sama hætti og gert er í rafrænu veskjunum sem geyma skírteinin og þá er ekki hægt að uppfæra sérstakan tímastimpil sem finna má á skírteinunum, undir kóðanum sem nýju skannarnir skanna.
Gagnrýna seinagang Stafræns Íslands
Samkvæmt grein Syndis er lítið mál að komast hjá því vandamáli fyrir fólk sem hefur svolitla tækniþekkingu, það sé vel mögulegt að útbúa passa sem er með öllu sambærilegur stafræna ökuskírteininu. Eina leiðin til þess að sannreyna hvort passi sé gildur sé með því að skanna QR-kóða hans.
Í greininni er seinagangur Stafræns Íslands, sem ber ábyrgð á innleiðingu stafrænna ökuskírteina, einnig gagnrýndur og að því spurt hvers vegna það hafi tekið meira en ár að útbúa skannann, eina tólið sem hægt sé að nota til þess að ganga úr skugga um hvort stafrænt ökuskírteini sé gilt eður ei.