Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, upplýsingafulltrúi Kára Stefánssonar forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, sem bauð sig fram til formennsku í SÁÁ fyrr í vikunni hefur dregið framboðið til baka og sagt sig úr aðalstjórn samtakanna.
Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu hennar í dag en samkvæmt Þóru Kristínu hefur Kári einnig sagt sig úr aðalstjórn SÁÁ.
„Eftir að 40 manns úr 48 manna stjórn SÁÁ skoruðu á mig að fara í framboð til formanns SÁÁ lét ég slag standa enda um stórt og spennandi verkefni að ræða á sviði sem varðar eitt mikilvægasta mál samfélagsins. Fjöldi fólks lét í sér heyra og hvatti mig áfram og það þótti mér vænt um.
Ég vissi fyrirfram að það ríkir hálfgert stríðsástand í þessum samtökum og hef ég ekki farið varhluta af því þótt það sé barist að tjaldabaki. Nú er unnið að því leynt og ljóst að safna glóðum elds að höfði mér úr mínu einkalífi og þar er af nógu að taka enda hef ég líkt og aðrir sem hafa farið í áfengismeðferð, lent á vegg í lífinu og gert og sagt hluti sem ég er ekki stolt af,“ skrifar hún.
Þóra Kristín segir jafnframt að það sé sýnu alvarlegra að fyrrverandi stjórnendur SÁÁ séu líka að hlaða í bálköst á samfélagsmiðlum fyrir Kára Stefánsson yfirmann hennar og náinn vin sem hafi einnig gert margt í sinni fortíð undir áhrifum áfengis sem hann hefði betur látið ógert og sitji líkt og hún í aðalstjórn SÁÁ og sé löngu hættur að drekka.
Vildi stilla til friðar – en ekki auka á ófriðinn
„Þá hefur einnig verið reynt að gera það tortryggilegt að ég sem starfsmaður Íslenskrar erfðagreiningar og Kári Stefánsson séum að láta til okkar taka í starfi SÁÁ vegna samstarfs við sjúkrahús samtakanna um rannsóknir.
Ég lýsti því strax yfir að ég ætlaði ekki að fara í fullt starf sem formaður, heldur halda áfram með líf mitt og stjórna samtökunum með þvi góða fólki sem situr í framkvæmdastjórn. Löngun mín var að stilla til friðar en ekki að auka á ófriðinn. Ég ætla því ekki að leggjast í stríðsrekstur og vil hvorki fórna starfi mínu né æru minni og yfirmanns míns fyrir sjálfboðavinnu fyrir samtökin,“ skrifar hún.
Þóra Kristín dregur framboð sitt til baka til formennsku og setu í framkvæmdastjórn í von um að þau finni sér formann sem sé óumdeildur. „Hættan er sú að að það sé erfitt í samtökum þar sem meirihlutinn hefur átt við áfengisvanda að stríða einhvern hluta ævinnar og verið gerendur og þolendur allskyns ofbeldis, flestir hvortveggja. Bæði ég og Kári Stefánsson segjum okkur þar með úr aðalstjórn samtakanna.“
Eftir að 40 manns úr 48 manna stjórn SÁÁ skoruðu á mig að fara í framboð til formanns SÁÁ lét ég slag standa enda um...
Posted by Þóra Kristín Ásgeirsdóttir on Thursday, February 3, 2022