„Það er holur hljómur í forstjóra fyrirtækis sem biðst vægðar þegar framganga þess litast öll af átakasækni við vinnandi fólk og raunveruleg samtök þeirra.“
Þetta segir Drífa Snædal forseti ASÍ í stöðuuppfærslu á Facebook í dag.
Vísar hún í frétt Vísis þar sem Birgir Jónsson forstjóri Play segir að verkföll hjá flugumferðarstjórum séu það síðasta sem ferðaþjónusta og flugiðnaður landsins þurfi á að halda. Félag íslenskra flugumferðarstjóra (FÍF) ákveður í dag hvort ráðist verði í verkfallsaðgerðir á þriðjudaginn í næstu viku og skoða hvort kjósa eigi um frekari verkfallsaðgerðir á næstunni.
Í fréttinni kemur fram að félagið muni funda með Isavia hjá ríkissáttasemjara í dag. Búist sé við að sá fundur geti staðið langt fram á kvöld en FÍF hafi til klukkan fimm í nótt til að boða verkfallið. Deilan strandi á vinnutíma flugumferðarstjóra.
„Ég held að við verðum að hafa traust á þessum aðilum að lenda málinu því þetta er náttúrulega það síðasta sem ferðaþjónustan og flugiðnaðurinn og í raun og veru bara landið þarf í þessu COVID-ástandi að það fari að bætast verkföll ofan í kaupið,“ segir Birgir í samtali við Vísi.
Með „þessari framgöngu“ sé Play að boða til erfiðra átaka
Drífa segir í stöðuuppfærslunni að verkföll séu neyðarúrræði og aldrei ákjósanleg fyrir neinn. „En í tilefni orða Birgis þá er ágætt að hafa það í huga að Play sneiddi hjá raunverulegu stéttarfélagi, gerði svokallaða kjarasamninga um störf flugliða við félag sem var ekki með neina flugliða innanborðs. Algerlega óboðlega kjarasamninga og neita svo að tala við raunverulegt stéttarfélag flugliða.“
Hún segir jafnframt að með þessari framgöngu sé Play að boða til erfiðra átaka á vinnumarkaði til lengri tíma því baráttunni gegn undirboðum og sniðgöngu stéttarfélaga sé hvergi nærri lokið. „Þessi framganga á fyrstu skrefum flugfélags mun lita öll samskipti samtaka vinnandi fólks við þetta fyrirtæki og þau samtök sem tala fyrir hönd þess,“ skrifar hún.
Verkföll eru neyðarúrræði og aldrei ákjósanleg fyrir neinn. En í tilefni orða Birgis þá er ágætt að hafa það í huga að...
Posted by Drífa Snædal on Monday, August 23, 2021