Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, gagnrýnir harðlega fjármálaáætlun ríkisstjórnar Íslands fyrir árin 2022-2026 í vikulegum pistli sínum í dag, og fylgir þar með eftir umsögn sambandsins um áætlunina sem skilað var inn til Alþingis í vikunni.
Drífa bendir á að fjármálaáætlunin geri ráð fyrir fimm prósent atvinnuleysi í lok tímabilsins sem hún nær til. Það sé að hennar mati með öllu óásættanleg framtíðarsýn. „Markmið ríkisfjármála á að vera að dempa höggið af kreppunni með því að tryggja afkomu fólks og fulla atvinnu til framtíðar. Við súpum enn seyðið af því langtímaatvinnuleysi sem myndaðist í kringum hrun en eftir því sem atvinnuleysi dregst á langinn, þeim mun erfiðara verður að takast á við það.“
Í pistlinum fjallar Drífa einnig um áform stjórnvalda um svokallaðar „afkomubætandi ráðstafanir“, en það er hugtak sem notað hefur verið um skattahækkanir og/eða niðurskurð á gjöldum ríkissjóðs. Drífa segir að um nýyrði sé að ræða sem virðist hafa verið fundið upp af Bjarna Benediktssyni, sitjandi fjármála- og efnahagsráðherra.
Drífa bendir á að hugtakið komi fram 114 sinnum í nýframlagðri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. „Í stuttu máli er þarna verið að leggja til annað hvort skattahækkanir eða niðurskurð. Ég árétta þá afstöðu ASÍ að niðurgreiðsla skulda á að mæta afgangi. Afkoma fólks og samfélagslegir hagsmunir eiga að vera í fyrsta sæti. Niðurskurður mun gera kreppuna dýpri og skaðlegri en hún þarf að vera.“
Gert ráð fyrir fleiri ferðamönnum, annars...
Í fjármálaáætluninni er gengið út frá ákveðinni grunnsviðsmynd sem miðar meðal annars við þær forsendur að meginþorri landsmanna og íbúa helstu viðskiptalanda verði bólusettur fyrir mitt ár 2021. Það muni leiða til fjölgunar ferðamanna sem drífi áfram efnahagsbata þannig að ferðamenn sem heimsæki Ísland verði 720 þúsund í ár og fjölgi um 80 prósent á næsta ári, 2022, og verði þá 1,3 milljónir alls. Á metárinu 2018 voru ferðamenn sem heimsóttu Ísland 2,3 milljónir og ár.
Reynist efnahagsþróunin hins vegar lakari og í samræmi við svartsýnu sviðsmyndina sem sett er fram í áætluninni, þar sem ferðaþjónustan er lengur að jafna sig og áhrifa sóttvarna gætir lengur með tilheyrandi áhrifum á atvinnuleysi, gefa áætlanir til kynna að undirliggjandi afkoma hins opinbera verði um 1,9 prósent af vergri landsframleiðslu lakari að jafnaði árin 2022–2026. „Við slíka afkomuþróun yrði nauðsynlegt að auka afkomubætandi ráðstafanir um helming þannig að þær yrðu um 50 ma.kr. á ári árin 2023–2025 í stað 34 ma.kr. Rýrnunin í undirliggjandi afkomu hins opinbera stafar að mestu af tekjulækkun sem nemur um 50 ma.kr. á ári að jafnaði miðað við þessa sviðsmynd. Þá aukast útgjöld hins opinbera um 16 ma.kr. á ári að jafnaði en kostnaður vegna atvinnuleysis vegur þar um helming. Aukin vaxtagjöld vegna hærri skuldsetningar eru um 5 ma.kr. á ári að jafnaði. Að teknu tilliti til aukins umfangs afkomubætandi ráðstafana stöðvast skuldasöfnun hins opinbera árið 2025 við um 59% af VLF. Um 0,6 prósentustig af skuldahækkuninni í lok tímabilsins má rekja til lægri áætlunar um VLF í svartsýnu sviðsmyndinni.“
Yfir 21 þúsund manns án atvinnu
Atvinnuleysi er í hæstu hæðum hérlendis um þessar mundir. Það dróst lítillega saman milli febrúar og mars en mældist samt sem áður 12,1 prósent í lok síðasta mánaðar. Þar af var almennt atvinnuleysi, sem mælir þá sem voru að öllu leyti án atvinnu, alls ellefu prósent sem þýðir að 21.019 manns voru atvinnulausir í lok síðasta mánaðar. Það minnkaði um 0,4 prósentustig á milli mánaða. Til viðbótar voru svo 4.186 á hlutabótum sem bætti 1,1 prósentustigi við heildaratvinnuleysið.
Alls höfðu 6.207 almennir atvinnuleitendur verið án atvinnu í meira en eitt ár í lok síðasta mánaðar. Þeim fjölgaði um 1.488 milli mánaða og hefur fjölgað um 4.009 frá því í mars í fyrra.
Þegar hópurinn sem hefur verið atvinnulaus í hálft ár eða meira er skoðaður þá taldi hann 13.647 um síðustu mánaðamót. Alls fjölgaði í þeim hópi um 886 milli mánaða.
Vilja viðbrögð við kerfislægu atvinnuleysi
ASÍ gagnrýndi í umsögn sinni um fjármálaáætlun að það skorti enn á sértækar aðgerðir til að mæta atvinnuleitendum á þeim svæðum sem verst hafa orðið úti og að atvinnuleysistryggingakerfið þurfi að tryggja viðunandi afkomu á meðan efnahagslífið nær sér á strik. Sambandið kallar eftir því að tímabil atvinnuleysistrygginga verði lengt úr 30 í 36 mánuði, að grunnbætur atvinnuleysistrygginga verði hækkaðar í 95 prósent af dagvinnutekjutryggingu og að hlutabætur verði virkt úrræði svo lengi sem þörf er á.
Þá kallar ASÍ eftir því að brugðist verði við kerfisbundnu atvinnuleysi hérlendis, sem hafi verið byrjað að aukast áður en að COVID-19 skall á. Skýringin liggi í samspili margra ólíkra þátta og þá sérstaklega vaxandi misræmis. „Íslenskur vinnumarkaður hefur tekið verulegum breytingum frá aldamótum. Veruleg fækkun hefur orðið í uppistöðustörfum utan höfuðborgar, þ.e. sjávarútvegi og ný störf sem hafa orðið til, t.d. í ferðaþjónustu og tengdum greinum eru afar frábrugðin þeim sem hurfu. Vinnumarkaður er orðinn fjölbreyttari, alþjóðlegri, kvikari, ásamt því að þjóðin eldist. Stjórnvöld hafa ekki tekið virkan þátt í að hafa áhrif á þessar breytingar, t.d. með mótun atvinnustefnu, hæfnistefnu eða stefnu í innflytj endamálum.“