Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra telur það mjög mikilvægt að íslenskir blaðamenn fái að sinna sínum störfum, sínu aðhaldi og eftirliti með stjórnvöldum og öðrum „með sem frjálsustum hætti“. Þetta kom fram í máli hans í undirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag en Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, spurði hann meðal annars hvað honum fyndist um njósnaleiðangra stórfyrirtækja gagnvart íslenskum blaðamönnum.
Þórhildur Sunna hóf mál sitt á því að segja að samskipti hinnar svokölluðu skæruliðadeildar Samherja, sem Kjarninn og Stundin hefðu fjallað um að undanförnu, sýndu að útgerðarfyrirtækið njósnaði um ferðir íslenskra fréttamanna á erlendri grundu.
Kjarninn greindi frá því í síðustu viku að Jón Óttar Ólafsson ráðgjafi Samherja hefði í upphafi febrúarmánaðar á þessu ári sagt að „skoðun“ væri hafin á því hvort fréttamaðurinn Helgi Seljan væri mögulega staddur í Namibíu.
Vissi ráðherrann af þessu samtali, spurði þingmaðurinn
Þórhildur Sunna benti jafnframt á að í njósnastarfsemi sinni hafði Samherji leitað á náðir stjórnsýslunnar og þannig hefði skipstjóri Samherja sett sig persónulega í samband við fyrrverandi sendiherra í Þýskalandi og núverandi ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins í upphafi þessa árs.
„Ætlunin var að fá upplýsingar um hvort fyrrnefndur Helgi Seljan hefði fylgt Jóhannesi Stefánssyni, uppljóstrara í Samherjamálinu, til Berlínar árið 2019. Í samtali við Kjarnann staðfestir ráðuneytisstjórinn að skipstjórinn hafi leitað til hans, þeir séu málkunnugir, en ekki hafi verið unnt að verða við beiðni skipstjórans því að hún hafi fallið utan verksviðs utanríkisþjónustunnar. Samskipti skæruliðadeildarinnar bera með sér að skipstjórinn hafi ekki fengið upplýsingar hjá ráðuneytisstjóranum en að samtal þeirra hafi verið, með leyfi forseta, „mjög gott“, eins og skipstjórinn orðaði það. Skipstjórinn hafi ætlað, með leyfi forseta, „að segja mönnum af“ spjalli þeirra enda teldi hann það endurspegla „svolítið hvað fólk er að hugsa“,“ sagði hún.
Spurði hún hvort ráðherrann hefði verið einn þeirra manna sem ráðuneytisstjórinn sagði frá þessu símtali.
Guðlaugur Þór svaraði og sagðist ekkert hafa vitað um þetta mál fyrr en ráðuneytisstjórinn sagði honum frá því fyrir nokkrum dögum að haft hefði verið samband við hann. „Í kjölfarið sendi ráðuneytisstjórinn yfirlýsingu, sem ég hygg að háttvirtur þingmaður hafi verið að vitna í. Að öðru leyti veit ég ekkert um þetta mál.“
Helga látið líða eins og hann væri ekki 100 prósent öruggur
Þórhildur Sunna steig aftur í pontu og sagði að þetta símtal hefði átt stað í kjölfar þess að fréttir bárust af því að setið hefði verið um Helga Seljan á kaffihúsi, hann fengið ógnandi skilaboð frá Samherjamönnum og almennt í því gert að fylgja honum eftir – og láta honum líða eins og hann væri ekki hundrað prósent öruggur.
„Nú veit ég að hæstvirtum utanríkisráðherra er annt um öryggi blaðamanna, að minnsta kosti á erlendri grundu,“ sagði hún og spurði Guðlaug Þór hvort ekki hefði verið tilefni til þess að láta Helga vita af þessum eftirgrennslunum fyrirtækisins, hvort honum fyndist eðlilegt að svona samtal ætti sér stað án þess að um það væri tilkynnt og hvað honum fyndist almennt um það að stórfyrirtæki væru að reyna að njósna um ferðir íslenskra fréttamanna á erlendri grundu.
„Hvað segir hæstvirtur ráðherra við slíkum njósnaleiðöngrum stórfyrirtækja gagnvart íslenskum blaðamönnum?“ spurði hún.
Engar reglur um hvernig „menn koma skilaboðum áleiðis“
Guðlaugur Þór sagði í kjölfarið að þingmaðurinn legði „svo sannarlega út af ýmsu“. Stóra málið væri náttúrlega það að stjórnvöld hefðu tekið sérstaklega upp málefni blaðamanna. „Það á við hvar sem er í heiminum þó svo að ólíku sé saman að jafna. Því miður er staða blaðamanna víðs vegar um heiminn orðin hræðileg eins og við þekkjum.“
Sagðist hann aftur á móti ekki átta sig á því hvert þingmaðurinn væri að fara varðandi hin fjölmörgu samtöl sem menn ættu almennt.
„Það eru engar reglur um hvernig menn koma skilaboðum áleiðis. Ég held hins vegar að aðalatriðið sé að það er mjög mikilvægt að íslenskir blaðamenn fái að sinna sínum störfum, sínu aðhaldi og eftirliti, getum við kallað það, með stjórnvöldum og öðrum með sem frjálsustum hætti. Það er nokkuð sem ég styð, hef stutt og mun styðja áfram,“ sagði hann að lokum.