Eggert Þór Kristófersson, sem var sagt upp sem forstjóra smásölurisans Festi í sumar, er kominn með nýtt stjórnendastarf. Hann hefur verið ráðinn forstjóri Landeldis hf., fyrirtækis sem vinnur að uppbyggingu fiskeldis á Íslandi sem stefnir að því að framleiða 33.500 tonn af laxi á landi árið 2028. Eins og er rekur Landeldi hf. seiðaeldisstöð í Hveragerði og áframeldisstöð við Þorlákshöfn á samtals yfir 33 hektara svæði og hefur í dag öll tilskilin leyfi til að ala lax á landi. Félagið hefur borað eftir um 2.000 l/sek af jarðsjó og tekið fjóra sjótanka í notkun og verða þeir orðnir 14 talsins um næstu áramót. Lífmassi um næstu áramót er áætlaður um 500 tonn. Félagið er nú með um 450 þúsund laxa í áframeldi og um 1,6 milljón í seiðaeldi. Um 25 manns vinna hjá félaginu og um 50 starfsmenn hjá undirverktökum.
Stærstu eigendur Landeldis eru fjárfestingafélagið Stoðir, sem á tæplega þriðjungshlut, Framherji hf.,. sem á 16,26 prósent hlut, og Fylla ehf. sem á 9,6 prósent.
Eggert mun hefja störf í næstu viku.
Rekinn en sagt að hann hefði sagt upp
Í byrjun júní ákvað stjórn Festi að reka Eggert úr starfi forstjóra. Í kjölfarið sendi stjórnin tilkynningu til Kauphallar Íslands þar sem sagt var að Eggert hefði sagt starfi sínu lausu. Það reyndist ekki rétt og Eggert sagði þeim hluthöfum sem samband höfðu að þannig væri í pottinn búið.
Auk þess fékk Eggert þær skýringar á uppsögninni að í henni fælist tækifæri fyrir hann. Sjö ár í forstjórastól væri nægjanlegur tími, Eggert væri enn ungur maður og breytinga væri þörf.
Í seinni tilkynningunni var gefin önnur ástæða. Samkeppni væri að aukast á öllum rekstrarsviðum félagsins og ólík verkefni blöstu við. Það kallaði á „nýja nálgun og nýjar hendur til að vinna verkin.“
Fékk 76 milljónir króna í starfslokasamning
Uppsögnin hafði miklar afleiðingar. Stórir hluthafar kröfðust þess að kosið yrði á ný í stjórn Festi, þrátt fyrir að aðalfundur væri tiltölulega nýlega afstaðin. Það leiddi til þess þrír nýir stjórnarmenn komu inn eftir stjórnarkjör sem fór fram í síðasta mánuði.
Þessi ólga breytti þó ekki stöðu Eggerts. Búið var að segja honum upp og störfum hans fyrir Festi lauk um síðustu mánaðamót.
Í árshlutauppgjöri Festi sem birt var undir lok júlímánaðar kom fram að kostnaður félagsins vegna starfslokasamnings við Eggert næmi um 76 milljónum króna og að hann yrði allur bókfærður á þriðja ársfjórðungi.
Miðað við þann 76 milljóna kostnað sem stjórn Festi áætlar mun Eggert Þór við starfslokin fá greiðslu sem nemur um fimmtán mánaðarlaunum hans. Þá er miðað við meðalmánaðarlaun forstjórans eins og þau voru í fyrra, en þá voru þau um 4,9 milljónir króna.