Hofgarðar ehf., félag í eigu Helga Magnússonar, hagnaðist um 3,2 milljarða króna á árinu 2021. Meginskýring hagnaðins er sala á sex prósenta hlut Hofgarða í Bláa lóninu til fjárfestingafélagsins Stoða í fyrrahaust. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag en Helgi er langstærsti eigandi útgáfufélags þess, meðal annars í gegnum Hofgarða.
Þegar Stoðir keyptu hlut Hofgarða í Bláa lóninu í september var kaupverðið sagt trúnaðarmál. Eigið fé Hofgarða, sem fjárfestir í skráðum og óskráðum verðbréfum, var 2,9 milljarðar króna í lok árs 2020 en er nú yfir sex milljarðar króna samkvæmt frétt Fréttablaðsins.
Bláa lónið er óskráð félag en eign Hofgarða í slíkum var metin á rúmlega einn milljarð króna í lok árs 2020. Þekktar óskráðar eignir Hofgarða á þeim tíma voru helst tvær, sex prósent hluturinn í Bláa lóninu og stór hlutur í Torgi, útgáfufélagi Fréttablaðsins, DV, Hringbrautar og tengdra miðla. Því má ljóst vera að hlutur Hofgarða í Bláa lóninu hefur verið seldur langt yfir bókfærðu virði.
Hofgarðar hafa ekki birt ársreikning sinn vegna ársins 2021 opinberlega. Einu upplýsingarnar sem liggja fyrir um gengi félagsins á því ári eru þær sem birtar voru í Fréttablaðinu í dag.
Setti 300 milljónir í rekstur fjölmiðla í byrjun árs
Hofgarðar keyptu nýtt hlutafé í Torgi fyrir 300 milljónir króna í byrjun árs. Skjölum vegna hlutafjáraukningarinnar hefur ekki verið skilað til Skattsins en samkvæmt því sem fram kemur á heimasíðu fjölmiðlanefndar eiga Hofgarðar, sem eru alfarið í eigu Helga Magnússonar, nú 60 prósent í fjölmiðlafyrirtækinu. Það sem upp á vantar er í eigu félagsins HFB-77 ehf., en annað félag Helga, Varðberg ehf, er eigandi 82 prósent hlutafjár í því félagi. Hann á því beint 92,8 prósent hlut í Torgi. Eigið fé Varðbergs var 379 milljónir króna í lok árs 2020 og því má ætla að Helgi eigi eignir umfram skuldir sem slagi hátt í sjö milljarða króna.
Heildarhlutafé Torgs ehf. nemur nú 750 milljónum króna, sem allt hefur verið keypt á genginu tveimur fyrir samtals 1.500 milljónir króna.
Hópurinn keypti Torg í tveimur skrefum á árinu 2019. Kaupverðið var trúnaðarmál en í ársreikningi HFB-77 ehf. fyrir árið 2019 má sjá að það félag keypti hlutabréf fyrir 592,5 milljónir króna á því ári. Torg var og er eina þekkta eign félagsins. Hlutafé í Torgi var svo aukið um 600 milljónir króna í lok árs 2020. Með nýju hlutafjáraukningunni er ljóst að settir hafa verið 1,5 milljarðar króna í kaup á Torgi og hlutafjáraukningar frá því að Helgi og samstarfsmenn hans komu að rekstrinum fyrir tveimur og hálfu ári.
Kjarninn greindi frá því í nóvember í fyrra að rekstrartap Torgs, útgáfufélags Fréttablaðsins, Hringbrautar, DV og tengdra miðla, var 688,7 milljónir króna á árinu 2020. Árið áður var rekstrartap félagsins 197,3 milljónir króna og því nam sameiginlegt rekstrartap þess á tveimur árum 886 milljónum króna.
Þegar vaxtagjöldum vegna lána sem Torg hefur þurft að borga af og gengismun er bætt við kemur í ljós að tap af reglulegri starfsemi fyrir skatta var um 750 milljónir króna á síðasta ári og rúmlega einn milljarður króna á tveimur árum.