Stjórnendur Arion banka segja að jákvæðar breytingar á markaði fyrir kísil hafi leitt til þess að mikill áhugi hafi skapast á eign dótturfélags bankans, Stakksbergs, en þar er um að ræða verksmiðju í Helguvík á Suðurnesjum sem áður var kennd við fyrirtækið United Silicon. Á kynningu sem fór fram á markaðsdegi bankans á miðvikudag segir að viðræður við áhugasama aðila standi yfir.
Bókfært virði Stakksbergs í bókum Arion banka var tæplega 1,7 milljarður króna í lok september síðastliðins.
Í síðasta birta árshlutareikningi Arion banka sagði að félagið væri á lokametrunum með nýtt umhverfismat á kísilverksmiðjunni. Áætlaður kostnaður við þær úrbætur sem átti að ráðast í á verksmiðjunni samkvæmt úrbótaáætlun Stakksbergs er um 4,5 milljarðar króna. Áætlanir um breytingar á verksmiðjunni eru sagðar vera á lokastigi samþykktar.
Sagði litlar vonir um að kveikt yrði aftur á verksmiðjunni
Þetta er töluverður viðsnúningur frá því sem fram kom á uppgjörsfundi Arion banka sem fram fór í febrúar síðastliðnum. Þar sagði Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, að þar sem bankinn bókfærði aðeins hrakvirði á verksmiðjuna væri það „vísbending um að litlar vonir séu um að verksmiðjan muni starfa aftur, áhugavert væri að sjá aðra og grænni starfsemi eiga sér stað þar í framtíðinni.”
Arion banki var stærsti kröfuhafi verkefnisins og tók yfir verksmiðjuna. Tilgangurinn átti að vera sá að greiða úr þeim vandkvæðum sem voru til staðar við rekstur hennar, uppfylla þau leyfi sem þurfti til og selja hana síðan þegar verksmiðjan væri orðin starfhæf að nýju.
Bankinn segir í ársreikningi sínum að Stakksberg sé nú á lokastigi vinnu við gerð nýs umhverfismats fyrir verksmiðjuna. „Markmið bankans er að selja rekstur Stakksbergs á grundvelli þeirrar vinnu sem unnin hefur verið í þessu skyni.“
Mikil andstaða íbúa við endurræsingu
Erfitt er þó að sjá að kísilmálmverksmiðjan verði endurræst, að minnsta kosti í fyrirsjáanlegri framtíð. Þar ræður miklu gríðarlega andstaða íbúa sem búa í nágrenni við verksmiðjuna sem hafa kvartað mjög undan mengun sem frá henni kom á meðan að verksmiðjan var starfrækt.
Nýtt deiliskipulag er forsenda þess að enduruppbygging verksmiðjunnar í geti átt sér stað og bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur vald til að hafna eða samþykkja tillögu að deiliskipulagi. Ákvörðun um hvort kísilmálmverið hefur starfsemi á ný er því pólitísk og ræðst í atkvæðagreiðslu kjörinna fulltrúa.
Kjarninn greindi frá því í september í fyrra að miðað við þau svör sem bárust frá bæjarfulltrúum í Reykjanesbæ um afstöðu þeirra til málsins sé ljóst að meirihluti núverandi bæjarstjórnar mun ekki gefa grænt ljós á það að kísilmálmverksmiðjan í Helguvík verði endurbætt, ræst að nýju og stækkuð líkt og Stakksberg fyrirhugar.
Frummatsskýrsla Stakksbergs um endurbætur og stækkun kísilversins í Helguvík var auglýst í byrjun maí í fyrra. Í 1. áfanga er m.a. ráðgert að reisa einn 52 metra háan skorstein og nýta einn ljósbogaofn, líkt og United Silicon gerði, til framleiðslunnar. Að loknum 4. áfanga yrði verksmiðjan fullbyggð með fjórum ljósbogaofnum og tveimur 52 metra háum skorsteinum.
Umhverfisstofnun sagði í umsögn sinni um frummatsskýrsluna að áhrifin af starfseminni yrðu á heildina litið talsvert neikvæð. Áhrif á loftgæði yrðu sömuleiðis talsvert neikvæð og mögulega verulega neikvæð. Einnig yrðu áhrif á lyktamengun, á vatnafar og ásýnd talsvert neikvæð.
Tugir íbúa Reykjanesbæjar skiluðu athugasemdum við skýrsluna. Í þeim var farið yfir þau neikvæðu heilsufarslegu áhrif sem verksmiðjan hafði á starfstíma sínum og allir löggðust þeir gegn því að verksmiðjan verði endurræst.