Eigendur Brúneggja hafa stefnt RÚV og Matvælastofnun vegna umfjöllunar um fyrirtækið fyrir rúmum fjórum árum síðan. Frá þessu greindi Þóra Arnórsdóttir í viðtali við Rás 2 í morgun.
Þóra, sem er í dag ritstjóri fréttaskýringaþáttarins Kveiks, sagði að stefnan hefði nýlega borist og að hún sé 45 blaðsíður. Lögaðilarnir sem stefna eru félögin Bali ehf. og Geysir fjárfestingafélag ehf., í eigu bræðranna sem áður áttu Brúnegg. Þrotabú Brúneggja framseldi þeim allar skaðabótakröfur auk þess sem stefnan fjallar um meint tjón sem stefnendurnir telja sig persónulega hafa orðið fyrir. Aðalkrafa þeirra er að skaðabótaskylda RÚV og Matvælastofnunar verði viðurkennd.
Þóra segir í viðtalinu að mikil vinna fari í að verjast svona málsóknum, sem hún hefur engar áhyggjur af að muni bera árangur. „En þetta eru nokkrar vikur af vinnu fyrir okkur. Við gerum ekkert annað á meðan. Við framleiðum ekki fréttir á meðan.“ Auðvitað eigi fólk rétt á því að fara fyrir dómstóla til að sækja rétt sinn ef því finnst á sér brotið. „Þarna eru bara ekki forsendur fyrir því.“
Tryggvi Aðalbjörnsson fékk Blaðamannaverðlaun ársins 2016 fyrir rannsóknarblaðamennsku vegna umfjöllunar sinnar um fyrirtækið Brúnegg. Hægt er að horfa á umfjöllunina í heild sinni hér.
Tekið til gjaldþrotaskipta 2017
Brúnegg var tekið til gjaldþrotaskipta snemma árs 2017. Það gerðist í kjölfar þess að nær öll eggjasala Brúneggja stöðvaðist eftir að Kastljós á RÚV fjallaði um starfsemina og fordæmalaus afskipti Matvælastofnunar af eggjabúum Brúneggja í nóvember 2016.
Brúnegg ehf. hafði hagnast um tugi milljóna á ári síðustu árin sem fyrirtækið var í starfsemi. Til að mynda var hagnaður fyrirtækisins tæplega 42 milljónir króna 2015 og tæplega 30 milljónir árið 2014. Samtals var hagnaður fyrirtækisins á árunum 2009 til 2016 vel yfir tvö hundruð milljónir króna. Bræðurnir Kristinn Gylfi Jónsson og Björn Jónsson áttu fyrirtækið í gegnum einkahlutafélög sín, og þessi félög högnuðust samanlagt um tæplega hundrað milljónir króna 2015.
Allar stærstu verslunarkeðjur landsins, þar á meðal lágvöruverslanarisarnir Bónus og Krónan, tóku Brúnegg úr sölu hjá sér eftir Kastljós-þáttinn og fyrir vikið hrundu tekjur fyrirtækisins mjög hratt, sem leiddi til gjaldþrots snemma árs 2017.
Herferð Samherja á hendur Helga og Aðalsteini
Þóra ræddi líka Samherjamálið svokallaða í viðtalinu í morgun, en Kveikur greindi í nóvember 2019 frá meintum mútugreiðslum, skattsvikum, peningaþvætti og öðrum mögulegum brotum sem grunur er um að framin hafi verið í alþjóðlegri starfsemi Samherja, sérstaklega í tengslum við umsvif fyrirtækisins í Namibíu.
Samherji brást mjög harkalega við umfjölluninni og hefur meðal annars látið framleiða röð myndbanda þar sem látið er að því liggja að Kveikur hafi sýnt af sér óvönduð vinnubrögð og að annarlegar hvatir fréttamannanna sem unnu umfjöllunina hafi verið ráðandi í henni.
Þóra segir að þetta séu óvenju harkaleg viðbrögð. Það vinni vissulega enginn í þætti eins og Kveik, þar sem stungið er á kýlum, til að afla sér sérstakra vinsælda. Fréttamenn þáttarins taki hins vegar almannahagsmunagæsluhlutverk sitt mjög alvarlega. Til þess þurfi þykkan skráp og standa með því sem viðkomandi er að gera hverju sinni. „Samherji fer út fyrir öll mörk með þessari herferð á hendur Helga Seljan og Aðalsteini Kjartanssyni,“ segir Þóra.
Hún segir að Samherja hafi alltaf staðið til boða að koma sínum sjónarmiðum á framfæri í þáttunum sem fjalla um starfsemi fyrirtækis, en því hafi alltaf verið hafnað. „Þess í stað fara þeir þessa leið að birta myndbönd á Youtube með ómældu fjármagni til að sverta mannorð blaðamannanna.“
Þetta hafi áhrif á aðra blaðamenn ómeðvitað, að mati Þóru og geti stuðlað að sjálfsritskoðun. Að þeir hugsi með sér að þeir nenni ekki að standa í svona áreiti. „Spáið í því að vera með einhvern spæjara, Jón Óttar, alltaf á kaffihúsinu þínu á morgnanna, hvíslandi að þér „ég veit hvert uppljóstrarinn í Namibíumálinu er fluttur“ og sendandi skilaboð, ógnandi, á Messenger og sms.“
Þetta er nýtt í íslensku fjölmiðlaumhverfi, segir Þóra. „Það er ástæða fyrir því að alþjóðleg samtök blaðamanna hafa verið að skoða þetta mál vegna þess að þetta er ekki eðlilegt framkoma í garð blaðamanna.“
Aðspurð vildi hún ekki segja hvað fælist í þeirri athugun. Það væri ekki hennar að lýsa því frekar.