Eignir íslenskra hlutabréfasjóða frá janúar til nóvember á síðasta ári voru 85 prósent meiri þær voru á sama tímabili árið 2020, en heildarvirði þeirra nam alls 154 milljörðum króna í nóvember. Þetta kemur fram í nýjum tölum Seðlabankans um eignir verðbréfasjóða.
Líkt og sjá má á mynd hér að neðan hefur 12 mánaða aukning í eignum sjóðanna verið yfir 80 prósent nær allt árið. Til viðmiðunar jukust eignir sjóðanna einungis um 4 prósent á milli áranna 2019 og 2020, en þær rýrnuðu um 3 prósent á milli áranna 2018 og 2019.
Eignaaukninguna má rekja til hærra hlutabréfaverðs, en úrvalsvísitala Kauphallarinnar hækkaði um 60 prósent á milli nóvembermánaða 2020 og 2021.
Líkt og Kjarninn greindi frá í gær námu heildarviðskipti með bréf alls 1.071 milljarð króna og jukust þau um 77 prósent á milli ára. Viðskiptin á hlutabréfamarkaðnum hafa ekki verið jafn umfangsmikil frá hruni.
Mest hækkuðu hlutabréf í Arion banka, en virði þeirra tvöfaldaðist á nýliðnu ári. Sömuleiðis hækkuðu bréf í Eimskipafélaginu um 95 prósent og bréf í Origo um 80,5 prósent. Minnst var hækkunin í Marel, en virði bréfa fyrirtækisins jókst um 10,9 prósent á tímabilinu.
Á sama tíma hafa eignir skuldabréfasjóða einnig aukist, en þó mun minna í prósentum talið. Í nóvember nam heildarvirði eigna í slíkum sjóðum um 510 milljörðum króna, sem var fimmtungi meira en í sama mánuði árið 2020. Eignir skuldabréfasjóðanna frá janúar til nóvember í fyrra voru að meðaltali um 14 prósentum meiri en á sama tímabili í fyrra.