Eignir íslenskra lífeyrissjóða hækkuðu um 236,7 milljarða króna í júlímánuði. Það er mesta hækkun sem orðið hefur á virði eigna þeirra á einum mánuði frá upphafi. Þessi mikla hækkun er fyrst og síðast tilkomin vegna þess að erlendar eignir lífeyrissjóðanna jukust um 157 milljarða króna í júlímánuði einum saman. Innlendu eignirnar hækkuðu á sama tíma um 79,7 milljarða króna.
Þetta má lesa út úr hagtölum Seðlabanka Íslands um stöðu lífeyrissjóðakerfisins sem birtar voru í dag. Alls var hrein eign lífeyrissjóða 6.611 milljarðar króna í lok júlí síðastliðins. Hún hefur tvívegis verið meiri í lok mánaðar. Fyrst í desember í fyrra, þegar virði eignasafnsins náði methæðum og var metið á 6.747 milljarða króna, og svo í mars á þessu ári þegar virðið náði að vera 6.653 milljarðar króna.
Búast má við því að erlendu eignirnar hafi hækkað enn frekar í virði í ágúst vegna veikingar krónunnar í þeim mánuði.
Til að setja þá hækkun sem varð á virði eigna lífeyrissjóðakerfisins í júlímánuði einum saman í samhengi má benda á að samkvæmt fjárlögum ársins 2022 er áætlað að rúmir 300 milljarðar króna renni til þess að reka heilbrigðiskerfið á Íslandi í ár. Í sömu fjárlögum var gert ráð fyrir að allar innheimtar skatttekjur ríkisins á árinu yrðu 955 milljarðar króna. Virðisaukning eigna íslenskra lífeyrissjóða í einum mánuði er því um fjórðungur af öllum áætluðum innheimtum skatttekjum ríkissjóðs í ár.
Lækkuðu um 361 milljarð á fyrri hluta árs
Sá viðsnúningur sem varð í júlí kom í kjölfar þess að eignir íslenska lífeyrissjóðakerfisins lækkuðu alls um 361 milljarð króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Sú lækkun var fyrst og síðast tilkomin vegna þess að virði hlutabréfa í eigu þeirra, jafnt innanlands sem erlendis, lækkaði.
Þessi lækkun kom í kjölfar mikillar hækkunarhrinu á árinu 2021 þegar eignir kerfisins jukust um 1.791 milljarð króna, eða um 36 prósent.
Alls eiga sjóðirnir íslensk hlutabréf og hlutdeildarskírteini sem metin voru á 1.115 milljarða króna í lok júli. Virði eignarflokksins hefur þó lækkað um 47 milljarða króna frá áramótum.
Betri gangur erlendis takmarkar möguleika
Alls eru um 66,3 prósent eigna lífeyrissjóðanna innlendar eignir. Hlutfallið hefur hækkað á þessu ári vegna þess verðfalls sem varð á erlendu eignunum framan af ári, en auk hlutabréfa samanstendur innlenda eignin að uppistöðu af skuldabréfum og lánum sem sjóðirnir hafa veitt sjóðsfélögum til húsnæðiskaupa.
Um liðin áramót voru erlendu eignirnar orðnar tæplega 36 prósent af heildareignum sjóðanna en það hlutfall hefur nú fallið niður í 33,7 prósent. Þær hafa þó nánast tvöfaldast í krónum talið á rúmum þremur árum.
Samkvæmt gildandi lögum hafa lífeyrissjóðirnir heimild til að vera með 50 prósent eigna sinna erlendis. Þeir hafa lengi kallað eftir að þetta hlutfall verði hækkað þar sem nokkrir sjóðir eru komnir ískyggilega nálægt hámarkinu. Í vor voru tíu lífeyrissjóðir komnir með hlutfall eigna sinna erlendis í um 35 prósent af heildareignum eða meira. Þar af voru þrír sjóðir komnir með hlutfallið yfir 40 prósent og einn, Lífeyrissjóður verzlunarmanna, var kominn með það nálægt 45 prósent. Sjóðirnir þorðu illa að fara með hlutfallið hærra þar sem skyndileg breyting á gengi krónu eða hækkanir á ákveðnum bréfum geta ýtt þeim yfir löglegt hámark.
Samkvæmt gildandi lögum hafa lífeyrissjóðirnir heimild til að vera með 50 prósent eigna sinna erlendis. Þeir hafa lengi kallað eftir að þetta hlutfall verði hækkað þar sem nokkrir sjóðir eru komnir ískyggilega nálægt hámarkinu. Í vor voru tíu lífeyrissjóðir komnir með hlutfall eigna sinna erlendis í um 35 prósent af heildareignum eða meira. Þar af voru þrír sjóðir komnir með hlutfallið yfir 40 prósent og einn, Lífeyrissjóður verzlunarmanna, var kominn með það nálægt 45 prósent. Sjóðirnir þorðu illa að fara með hlutfallið hærra þar sem skyndileg breyting á gengi krónu eða hækkanir á ákveðnum bréfum geta ýtt þeim yfir löglegt hámark.
Djúpstæð óánægja
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, lagði fram frumvarp fyrr á þessu ári sem rýmka átti heimildir lífeyrissjóða til að fjárfesta erlendis.
Þegar drög að frumvarpinu voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda stóð til að hlutfallið myndi hækka um eitt prósentustig á ári frá byrjun árs 2024 og til loka 2038. Heimildin yrði þá 65 prósent í lok þess árs.
Í umsögn Landssamtaka lífeyrissjóða um drögin kom fram að djúpstæð óánægja væri meðal fulltrúa þeirra sjóða sem væru þegar komnir nálægt núgildandi þaki með hvers hægt ætti að rýmka heimildirnar. Kallað var eftir því að hækka heimildina strax um næstu áramót og hækka hana um tvö til þrjú prósentustig á ári þangað til að 65 prósent markinu yrði náð. Ef farið yrði að ítrustu kröfum sjóðanna myndi það takmark nást í árslok 2027 að óbreyttu.
Í frumvarpinu eins og það var lagt fram á Alþingi var gerð sú breyting að á árinum 2024, 2025 og 2026 yrði heimild sjóðanna í erlendum eignum hækkuð um 1,5 prósentustig á ári og yrði þannig 54,5 prósent í lok síðasta ársins. Eftir það ætti hámarkið að aukast um eitt prósentustig á ári þar til það nær 65 prósentum í byrjun árs 2036. Í frumvarpinu stóð enn fremur að ráðherra ætti í síðasta lagi á árinu 2027 að leggja mat á hvort tilefni sé til að leggja til aðrar breytingar.
Frumvarpið var ekki afgreitt fyrir þinglok. Búist er við því að það verði tekið til afgreiðslu snemma á næsta þingi.