Ákveðið hefur verið að stytta einangrun vegna kórónuveirusmits úr sjö dögum í fimm, með reglugerð heilbrigðisráðherra sem tekur gildi á mánudaginn, 7. febrúar.
Fram kemur í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu að sem fyrr verði þó heimilt að framlengja einangrun ef þörf krefur samkvæmt læknisfræðilegu mati.
Á mánudag taka einnig gildi breytingar sem varða sóttkví og smitgát. Þær felast í því að þeir sem hafa fengið COVID-19 sýkingu, sem staðfest hefur verið með PCR-prófi síðustu 7-180 daga, þurfa ekki lengur að fara í sóttkví né smitgát.
Allir fá skilaboð í gegnum Heilsuveru þegar einangrun lýkur
Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að þeir sem losna úr einangrun þurfi að hafa verið hitalausir í að minnsta kosti sólarhring og að fylgja skuli reglum um smitgát í að minnsta kosti tvo daga eftir að einangrun lýkur.
Þá segir einnig að reglugerðin gildi einnig um þá sem verða í einangrun á mánudaginn, er hún tekur gildi.
„Það felur í sér að henni lýkur hjá þeim sem þegar hafa verið í einangrun í 5 daga eða lengur þegar reglugerðin tekur gildi 7. febrúar. Allir sem eru að ljúka einangrun frá skilaboð þess efnis í gegnum Heilsuveru og þar með en ekki fyrr lýkur einangruninni,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.
Í dag eru alls 10.373 einstaklingar í einangrun vegna COVID-19 hér á landi, samkvæmt upplýsingum á tölfræðivef yfirvalda um stöðu faraldursins.