Samninganefnd félagsins samþykkti samhljóða á fundi í gær heimild til verkfallsboðunar hjá félagsmönnum er vinna undir samningum SGS og SA, bæði almenna samningnum og einnig veitingahúsasamningnum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Einingu-Iðju.
„Fyrri atkvæðagreiðsla okkar var dæmd ólögmæt og því er hún endurtekin núna, en greint á milli aðildarfélaga innan SGS og þeirra samninga sem kosið er um. Mjög mikið hefur verið hringt á skrifstofur félagsins og spurt hvenær atkvæðagreiðslan hefjist á ný. Við getum nú upplýst að atkvæðagreiðslan mun hefjast næsta mánudag, 13. apríl, kl. 8 og henni mun ljúka á miðnætti 20. apríl. Niðurstöður ættu að liggja fyrir daginn eftir. Atkvæðagreiðslan verður rafræn og munu félagsmenn fá sent lykilorð í pósti eftir næstu helgi,“ segir í tilkynningunni.
„Mjög mikilvægt er að fá góða þátttöku í atkvæðagreiðslunni,“ segir í tilkynningunni og því hvetur félagið þá félagsmenn sem starfa eftir þessum samningum að greiða atkvæði um leið og „þeir fá lykilorðið í hendur.“